Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekkert slegið af markmiðunum þótt það hafi ekki tekist að uppfylla þau á undanförnum árum, ég er einmitt á þeirri vegferð að ná að uppfylla þau. Ég hef sagt það hér áður að vél sem getur sinnt því hlutverki sem TF-SIF getur sinnt í dag þarf að vera til staðar allt árið. Hún hefur reyndar verið að sinna fyrir okkur þessi vél, og það má ekki gleyma, Frontex-verkefnum á vettvangi Schengen-samstarfsins. En ég tel að ef við ætlum að vera með flugvél til að sinna okkar framlagi þar þá eigi það að vera sérstök ákvörðun og eiga þá að vera sérstök kaup á vél til að sinna þeim verkefnum en ekki vél sem við þurfum á að halda hér á Íslandi. Við skulum ekki gleyma því líka að það hefur átt sér stað gríðarleg efling, til að mynda á skipaflota Gæslunnar. Nú eru orðin tvö alvöruöflug skip í flotanum eftir tilkomu Freyju hér fyrir þremur árum síðan og einmitt núna var frétt um að það er strandað flutningaskip á Húnaflóa og það er einmitt skipið á Norðurlandi, Freyja, sem er á leiðinni núna og er áætlað að komi á strandstað fyrir kvöldmat. Þetta sýnir mikilvægi þess að vera með skip staðsett beggja vegna á landinu. Þarna hefur átt sér stað gríðarleg efling á skipaflota Gæslunnar. Við erum líka að efla skipaflota björgunarsveitanna núna, tökum þátt í því með Slysavarnafélaginu Landsbjörg að endurnýja 13 stærri björgunarskip félagsins með nýsmíði frá Finnlandi. Þetta er fjárfesting upp á um 3,5 milljarða og ríkið, ríkisstjórnin tekur myndarlega þátt í því að hjálpa félaginu í gegnum þann fjárfestingarskafl, en það auðvitað eykur gríðarlega öryggi á sjó.

Þetta er mín framtíðarsýn í þessum málum. Ég horfi aftur á móti til þess hvernig málin hafa þróast á sviði tæknibúnaður, tækni í leit í leit og björgun, og við getum mögulega uppfyllt það, uppfyllt öll þessi skilyrði með hagkvæmari hætti (Forseti hringir.) en við höfum verið að gera, kaupa öðruvísi vélar, setja í hana öðruvísi búnað sem uppfyllir öll skilyrðin (Forseti hringir.) og þannig náð fram enn meiri árangri og enn öflugra starfi hjá Landhelgisgæslunni heldur en áður hefur verið.