Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Frú forseti. Ég hef eiginlega sagt það hér í allri þeirri umræðu sem hefur orðið um Gæsluna að við erum að endurskoða þessi markmið og þessa mælikvarða til að geta sett fram raunhæf markmið og raunhæfa mælikvarða á grundvelli þeirrar framtíðarsýnar sem við munum leggja fyrir. Það er ekki gott að vera að setja fram markmið og mælikvarða sem aldrei er hægt að uppfylla. Það þarf að vera eitthvert raunsæi í því og við erum að vinna þau gögn og það er, eins og ég hef sagt áður, í farvatninu að koma að því. Það náttúrlega blandast engum hugur um það hversu mikið álag hefur orðið á kerfi Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála og þrátt fyrir að við séum að fjölga starfsfólki stöðugt þá eykst þrýstingurinn. Hér stefnir í algjöran metfjölda á þessu ári af fólki sem leitar hér eftir vernd og það gefur augaleið að þrátt fyrir að það sé bætt við fjármagni og starfsfólki þá auðvitað tekur tíma að þjálfa það upp og bregðast við þessu gríðarlega mikla álagi. Við erum bara í þeim fasa. Við erum í því með þau markmið að reyna að stytta þennan málsmeðferðartíma eins og hægt er með sama hætti og við erum að gera annars staðar. En það getur verið erfitt þegar það einhvern veginn skrúfast alltaf meira og meira frá krananum, þú ert ekki með þjálfað starfsfólk og þekkinguna alla bara uppi í hillu. Það tekur tíma að geta brugðist við slíku álagi. Við erum á, getum við sagt, miklum tímamótum í þessum erfiða málaflokki með tilheyrandi álagi á öll okkar kerfi. Ég hef ekkert farið leynt með það að við því þarf að bregðast þannig að við komumst á einhvern svipaðan stað varðandi þessi mál og gengur og gerist í þeim löndum sem eru í kringum okkur.