Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er svo sannarlega ástæða til að halda vöku okkar og efla okkur á þessum vettvangi. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í þeim efnum. Þetta er ekkert átaksverkefni sem þú gerir einu sinni, þetta er verkefni sem er með okkur allan tímann. Ég held að ef við ætlum að ná raunverulegum árangri í þessum málum, sem ég geri mér vissulega vonir um að við gerum — og ég held að við séum á réttri leið, það eru margar vísbendingar sem gefa okkur merki um að við séum á réttri leið. Við höfum endurnýjað áætlunina um átak í þessum málaflokki. Eitt af því fyrsta sem ég setti í gang þegar ég kom í ráðuneytið í desember 2021 var samfélagsátak í þessu, fræðsla. Ég held að það sé, ásamt auðvitað því að bæta réttarstöðu brotaþola, að efla rannsókn og saksókn í þessum viðkvæmu málum, auka þekkingu lögreglumanna og veita sálfræðiaðstoð og allt þetta sem við erum að gera, þá held ég að það sé mikilvægast að það sé einhver samfélagsvakning sem eigi sér stað í þessum málum. Það getur auðvitað gerst í samvinnu við skólakerfið og slíkt en við fórum í samstarf við skemmtistaðina, við leigubílstjóra, við almenningssamgöngufyrirtæki og settum í gang átakið Er allt í góðu? Við keyrðum það síðan fyrir verslunarmannahelgina þar sem við sögðum góða skemmtun. Og svo aftur í lok ársins þar sem við vorum á jólaföstunni. Við stóðum fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk sem var á útihátíðum, eins og til að mynda í Vestmannaeyjum. Það var alla vega það ánægjulega sem gerðist í Eyjum um verslunarmannahelgina í fyrra að þar var ekkert kynferðisbrot kært sem gekk lengra. Það eru þessir þættir sem ég held að þurfi að vera algjörlega fastur liður í því að efla þessa starfsemi, (Forseti hringir.) að við fáum fólkið í lið með okkur, að fólk taki þátt í þessu, (Forseti hringir.) snúi sér ekki undan og horfi í hina áttina heldur láti þessi mál sig varða.