Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög eðlilegar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Það er nefnilega svo að allt sem hér var sagt um það álag sem er á þessu svæði á náttúrlega ekki síst við um Suðurnesin þar sem lögreglan er líka með landamæravörsluna og allt sem því fylgir á þessu stóra hliði inn til landsins. Það eru mjög krefjandi verkefni. Síðan auðvitað móttaka á fólki sem kemur þar inn og er að leita eftir vernd o.s.frv., þetta allt saman hefur aukið álagið gríðarlega. Ég held, svo að ég bara segi það, að það sé mjög mikilvægt, og ég hef ávarpað það og setti í ákveðinn undirbúningsfasa, að við þurfum að byggja nýja aðstöðu fyrir lögregluna á Suðurnesjum. Bæði þarf staðsetningin að vera betri og öll aðstaða þarf að batna. Í tengslum við þá byggingu þurfum við að hafa mögulega gæsluvarðhaldsfangelsi á staðnum sem tilheyrir þessum landamærum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum sem fyrst í þessi verkefni. Við fjölguðum starfsmönnum núna í þessu átaki — ég hef smá fyrirvara á þessum tölum en ég held að ég muni það rétt milli embætta að við höfum fjölgað um tíu starfsmenn hjá lögreglunni á Suðurnesjum núna í því átaki sem við erum í á þessu ári, og það er varanlegt, og ég held að við höfum fjölgað um sjö hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þetta er gríðarlega mikil aukning fyrir þessi embætti, gríðarlega mikill mannkraftur sem þau fá inn og gerir þau auðvitað betur í stakk búin til að takast á við þessi krefjandi verkefni. Þannig að ég held að við höfum hlustað á þessi embætti og við erum að bregðast við. Ég held að (Forseti hringir.) geta þeirra í tækjabúnaði og mannskapsmálum sé ágæt en á Suðurnesjum eru húsnæðismálin (Forseti hringir.) algerlega óviðunandi.