Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að vinnutímastyttingin er mikil áskorun, sérstaklega þar sem vaktavinna er í gangi, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða löggæslunni eða annars staðar þar sem vaktavinnutími er, og það hefði verið áskorun að koma því fyrir. Þetta var bætt alveg sérstaklega, fyrir utan þau framlög sem hafa komið núna til eflingar löggæslunni, með um 900 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði áður. Þannig að við höfum náð að brúa það bil þó að enn sé í gangi svolítil aðlögun embættanna að þessu. Þau eru enn í raun svolítið að straumlínulaga starfsemina í tengslum við þetta nýja fyrirkomulag. Það er náttúrlega lögreglustjórinn á Suðurnesjum sem stýrir því hvar hann setur mannskap og eftir þeirri þörf sem er. Þessi stöðugildi sem bættust við núna, þau gæti hann nýtt með hvaða hætti sem er í sjálfu sér. Það er ákvörðun þeirra sem skipuleggja það. Við höfum á sama tíma verið að horfa mjög til ákveðinnar skipulagsbreytingar. Við fórum í mjög góða vinnu, sem Vilhjálmur Árnason alþingismaður leiddi fyrir mig, með lögreglustjórunum öllum á síðasta ári, byrjuðum strax í byrjun árs 2022, þar sem var farið yfir skipulagsmál, verkefni sem eru hjá lögreglunni sem má færa til sýslumanna, alls konar leyfisveitingar og slíkt. Við erum að stefna að því að lögreglan geti fyrst og fremst verið að sinna sinni kjarnastarfsemi sem er löggæsla og rannsókn og saksókn en eigi ekki að þurfa að vera í öðrum verkefnum. Við erum einnig að reyna að innleiða straumlínulagaðra kerfi þar sem verkefnin flæða frá stærri embættunum til fámennari embættanna þannig að við séum að ná fram fullri nýtingu (Forseti hringir.) í fámennari embættunum á sama tíma og við fjölgum þar starfsmönnum sem geta þá verið þannig að embættin geti verið sjálfbær í fyrsta viðbragði (Forseti hringir.) þegar alvarlegir atburðir eiga sér stað.