Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem hæstv. ráðherra sagði og ágætt að heyra það, svo langt sem það nær, að hæstv. ráðherra virðist leggja raunhæft mat á stöðuna. Við höfum séð það ítrekað, m.a. í umræðu um þessa áætlun, að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma hér ítrekað og segja að það sé ómögulegt ástand í hinum eða þessum málaflokki og það þurfi að fara að gera eitthvað í þessu, en hvenær stendur til að gera eitthvað í þessum risastóra málaflokki sem er algerlega farinn úr böndunum? Jú, það er nýbúið að samþykkja litla útlendingafrumvarpið í fimmtu tilraun og ekki fyrr en var búið að þynna það út í hverju skrefi þannig að það hefur í raun mjög takmörkuð áhrif við að takast á við þennan gríðarlega vanda. Á síðasta ári fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi meira en fimmtánfalt á við Íslendinga. Fyrir hvern Íslending sem fjölgaði um á Íslandi í fyrra fjölgaði erlendum ríkisborgurum um meira en 15. Þetta er auðvitað þróun sem ekkert samfélag stendur af sér með góðu móti. Við viljum, og ég veit að hæstv. ráðherra er sammála mér um það, vera í aðstöðu til að hjálpa sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð og gera það vel en þetta fyrirkomulag, eða fyrirkomulagsleysi, er ekki til þess fallið. Hvenær er von á einhverjum raunverulegum aðgerðum frá hæstv. ráðherra og þessari ríkisstjórn í samræmi við tilefnið? Þetta getur ekki gengið svona lengur. Vandinn bara eykst og eykst og hefur áhrif á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem það er á leigumarkaði, í skólum, útgjöldum ríkisins eða annars staðar. Hvenær er von á alvöruaðgerðum til að takast á við þennan gríðarlega vanda?