Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það væri gott ef við gætum staðið hér í allan dag að ræða um menntamál en því miður þá fáum við til þess afar takmarkaðan tíma. Hæstv. ráðherra nefndi að í kjölfar hruns hafi framlög til háskóla verið skorin verulega niður og kominn tími til að sækja fram. Ég minni hæstv. ráðherra á að hrunið varð 2008 og þá var einmitt sett sérstakt átak í að opna háskólana og hvetja fólk mjög til náms af því að þáverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var fullmeðvituð um að við yrðum að vaxa út úr þeirri ofboðslegu kreppu sem þá var og það yrði ekki gert með öðru en einmitt að auka möguleika til náms og hvetja fólk til mennta.

Það sem ég hef kannski áhyggjur af varðandi ríkisstjórnina í dag er að það var tekin sú ákvörðun að splitta upp menntun á Íslandi við samsetningu núverandi ríkisstjórnar til að fjölga stólum. Ég hef áhyggjur af því af því að ég heyri hvernig hæstv. háskólaráðherra talar um háskólaumhverfið og uppbyggingu háskóla og að við þurfum að efla háskólana og tryggja menntun og þess háttar, og ég fylgist grannt með henni af því að ég hef trú á því sem hæstv. ráðherra vill gera þar, en ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin, sem er tíðrætt um að hún sé ekki fjölskipað stjórnvald, tali illa saman þegar kemur að menntun. Við erum með tvo ráðherra. Annar er eingöngu að hugsa um að grípa þau börn sem þurfa á einhverri aðstoð að halda, sem einhvern veginn standa höllum fæti og ég heyri miklu minna talað um menntun á Íslandi, á meðan háskólaráðherra talar um háskólasamfélagið og menntun þar. En það er lítið talað um þann grunn sem nemendur þurfa að hafa til að komast alla leið upp í háskóla.

Ég vil aðeins heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessa. (Forseti hringir.) Eitt eru peningar, annað eru möguleikar til náms og það að við gefum ekki afslátt á gæðum náms á Íslandi.