Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:42]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með áræðni hv. þingmanns í þessu máli og segi eins og er að ég er jákvæð fyrir því að gera á þessu breytingar en það kostar auðvitað ríkið að veita hærri lán. Það þarf að taka það inn í alla þá umræðu að það sé ákvörðun um að veita mun hærri lán fyrir þá alla sem eru að vinna og eru að fá lægri lán í dag, þó að sjálfsögðu sé síðan gert ráð fyrir að það skili sér auðvitað með vöxtum og endurgreiðslum á láninu sjálfu. Ég er jákvæð fyrir einhverjum breytingum á frítekjumarki atvinnutekna og er að skoða það. Ég lofa ekki að ráðast jafn hratt í þetta og hv. þingmaður hvetur mig þó til en ég tek hvatninguna inn í þá vinnu.