Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:45]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þennan hluta. Ég tek undir með hv. þingmanni að netöryggi þurfi að fá eiginlega meiri sýnileika í þessari áætlun. Netöryggi teygir sig inn á svo marga málaflokka og inn á mörg ráðuneyti í raun. Það er stórt málefni og er hér einhvern veginn hluti af fjarskiptum en við þurfum að gefa því þó það rými sem það þarf. Við höfum gert núna mjög skýra aðgerðaáætlun um netöryggismál. Hún er byggð á þeirri stefnu sem var búið að marka og var kláruð í fyrra. Nú er komin skýr aðgerðaáætlun í netöryggismálum og henni er líka fylgt eftir með mælikvörðum og mæliborði á netinu þar sem hægt er að fylgjast með gangi mála, hver ber ábyrgð á hverju o.s.frv. Það er búin að vera gríðarleg aukning í netöryggismálum, teknar stórar ákvarðanir, en fjármunirnir koma þó ekki alltaf inn á málaflokk 11 heldur koma oft inn gegnum lögregluna og utanríkismál þar sem þetta eru auðvitað líka varnar- og löggæslumál sem hluti af netöryggismálum. Við eigum í góðu samtali við þessi ráðuneyti. Ein af aðgerðum netöryggisaðgerðaáætlunarinnar er að skoða stjórnsýslu netöryggismála og skoða löndin í kringum okkur og búa betur um hnútana svo að hér virki hlutirnir betur. Við höfum stigið nú þegar mörg skref í aðgerðaáætluninni á þessu ári og erum auðvitað síðan líka með skýr markmið og mælikvarða í málaflokki 11.2 um fjarskipti og netöryggi. Við þurfum auðvitað að skoða hvort þeir fjármunir sem koma inn í tíðniheimildirnar lögum samkvæmt eigi að renna í fjarskiptasjóð, hvernig við sjáum það gerast í fjármálaáætluninni. Hér er verið að setja mjög stór markmið um að allri byggð bjóðist aðgangur að háhraðasambandi, áreiðanlegu farnetssambandi á öllum helstu stofnvegum. Ég held að markmiðin séu mjög skýr ef fjármunir koma í gegnum fjarskiptasjóð og hvernig við síðan styðjum við (Forseti hringir.) þau nýju lög sem við samþykktum þar sem við erum líka að sjá mun meira samtal (Forseti hringir.) og samvinnu fjarskiptafyrirtækjanna til að tryggja þetta með okkur þar sem er markaðsbrestur.