Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:50]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur kannski svolítið inn á bara stuðningsumhverfi nýsköpunar í heild. Þar hafa verið stigin stór skref undanfarin ár og við erum orðin mjög samkeppnishæf þegar kemur að fjármögnun nýsköpunarumhverfisins. Sú vinna sem stendur yfir núna er annars vegar að fá skýrslu OECD um rannsóknir og þróun, endurgreiðslurnar, hvaða bragarbót við getum gert á því þegar við ætlum að reyna að stefna að því að gera þann stuðning varanlegan. Þar stendur yfir vinna mín og fjármálaráðherra varðandi það að geta bæði haldið áfram að vera samkeppnishæf í endurgreiðslum rannsókna og þróunar, en við sjáum hvað sá stuðningur hefur skipt miklu máli en er líka orðin mjög stór hluti af þeim útgjöldum sem eru sett á málefnasviðið þó að við vitum auðvitað að þetta er fjárfesting til lengri tíma. Á sama tíma þá stigum við skref í Kríu, við erum með Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og síðan erum við með mjög marga opinbera sjóði. Það sem við erum að skoða núna er: Hvar þarf ríkið að vera og hvar ekki? Getum við skapað meiri sveigjanleika í stuðningsumhverfinu til að ríkið geti bakkað þar sem það þarf ekki að styðja við á ákveðnum tímapunktum þegar nægur stuðningur er eða líka bætt í þegar þörf þykir?

Varðandi sjóðaumhverfið þá hef ég verið að taka það saman og bent á að það eru of margir sjóðir. Það eru of margir litlir sjóðir þar sem umsýslan er allt of dýr og ógagnsæ. Það er ekki gagnsæi gagnvart því hvert fjármunirnir eru að fara. Við vitum ekki hvort minni verkefni séu t.d. að fá úr mörgum sjóðum ef umsýslan er á hendi mismunandi aðila. Ég lét taka þetta saman og sagði aðeins frá fyrstu niðurstöðum þess og í dag eru 80 sjóðir, 55 af þeim eru nýsköpunar- og rannsóknasjóðir. Við megum geta áætlað að kostnaðurinn við umsýslu á þessum sjóðum sé 800 milljónir. Það er út af því og ekki bara til að spara opinbert fjármagn heldur líka til þess að fyrirtæki séu ekki að hafa heilu starfsmennina í umsögnum til hins opinbera á umsóknum (Forseti hringir.) um styrki sem kosta álíka fjármuni fyrir þau og streð. (Forseti hringir.) Ég kalla þetta frumskóg frumkvöðla sem ég ætla að reyna að leysa úr.