Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:53]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir sína framsögu og svör hennar hér í dag. Það er gleðilegt að sérstök framlög séu til eflingar háskólastigsins enda mikilvægt að stuðla að öflugri menntun, auknum rannsóknum og nýsköpun. Samkvæmt stefnunni vaxa framlög til háskóla um 2 milljarða kr. á tíma áætlunarinnar. Framlögin eiga að mæta ýmsum breytingum á sviði háskólanna. Sérstök áhersla er lögð á eflingu náms og fjölgun nemenda í svokölluðum STEAM-greinum, þ.e. vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði, svo og öðrum greinum sem tengjast nýsköpun, tölvum og tækni. Það er gott að byggja upp námsgreinar sem mæta þörfum framtíðarinnar en ég geld varhug við því að áherslan sé um of á námsgreinar sem henta einungis þörfum atvinnulífsins á kostnað annarra greina svo sem félagsvísinda, tungumála og fleiri greina sem fást við þetta mannlega.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort hún telji að þessi áform og áherslur taki til nógu margra námsgreina. Sömuleiðis væri fróðlegt að vita hvaða framtíðarsýn ráðherra hefur fyrir aðrar námsgreinar en þær sem falla undir STEAM.