Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:57]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hugsa að við séum ekki alveg sammála. Við sjáum hlutina út frá ólíku sjónarhorni. En mig langar í framhaldi af fyrri ræðu minni að segja að námsval er lykilþáttur í öllu háskólastarfi. Það er lykillinn að óháðum öflugum rannsóknum að umgjörð háskóla sé með þeim hætti að námsúrval sé sem fjölbreyttast, m.a. vegna þess að það færir nám skrefinu fjær utanaðkomandi áhrifum. Ef við tökum til þess að framleiða tilteknar prófgráður erum við á flæðiskeri stödd. Ekki munum við bara hafa sett öll eggin í sömu körfuna heldur myndi sá auður sem felst í fjölbreyttum rannsóknum hverfa. Við þurfum á öllu litrófinu að halda í þessum efnum. Þannig sækjum við fram og það er mín framtíðarsýn.

Í þessu samhengi vil ég spyrja hvernig hæstv. ráðherra hyggst tryggja fjölbreytni í námsframboði, sér í lagi hvað varðar greinar innan félags- og hugvísinda og vegna fyrra svars hæstv. ráðherra þá vil ég bara segja að ég tek algjörlega undir það að við höfum ekki verið sjálfbær með t.d. heilbrigðisstarfsfólk. Þar þurfum við að standa í lappirnar og gera vel og við þurfum líka fjölbreyttar aðferðir við að mæta þeim þörfum sem heilbrigðiskerfið okkar horfir fram á og er komið á þann stað að okkur bráðvantar starfsfólk. En við megum ekki láta atvinnulíf eins og það er statt hverju sinni stýra því hvernig við byggjum upp okkar háskóla og okkar rannsóknir hér á landi. Það er ekki langt síðan að meira að segja sú sem hér stendur útskrifaðist með gráðu í lögfræði en fjórir háskólar voru að dæla út lögfræðingum af því að það var það sem markaðurinn kallaði eftir þá. (Forseti hringir.) Það var ekki gott, fullt af lögfræðingum, viðskiptafræðingum (Forseti hringir.) og öðrum voru í vanda að námi loknu af því að fókusinn var allur á það (Forseti hringir.) sem atvinnulífið hrópaði á á þeirri stundu.