Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og áhugavert að vita að menn gera þá lítið með þessar skoðanir sem koma beint frá fyrirtækjunum sjálfum. Það er kannski vandinn við þessa umræðu. Við getum talað um það sem gengur upp og heppnast vel en vandinn við áskoranirnar sem fylgja þessum litla gjaldmiðli eru öll tækifærin sem verða ekki að veruleika og það er auðvitað verra að mæla það. Hitt sem mig langaði að ræða hér við hæstv. ráðherra — eðli máls samkvæmt eru ráðherrar svolítið fastir í sínum málaflokki en þeir eru þingmenn líka og hafa skoðanir á öllu — snertir það að nú erum við svolítið að tala um þessa fjármálaáætlun út frá vöxtum og verðbólgu. Ég tók eftir því fyrr í dag hjá hæstv. forsætisráðherra að hún sagðist telja að sú umræða sem byggir á þeirri forsendu að hér hafi orðið gríðarlegur útgjaldavöxtur hjá ríkinu stæðist ekki. Hæstv. forsætisráðherra slær sem sagt á allar þær raddir sem heyrast úr atvinnulífinu, frá verkalýðshreyfingunni, frá fjármálaráði, frá Seðlabankanum, frá einstaka þingmönnum, einkum úr Sjálfstæðisflokknum, svo við tökum dæmi úr stjórnarliðinu, sem hafa haft áhyggjur af því að hér hefur útgjaldavöxturinn verið gríðarlegur og sú þróun var byrjuð fyrir Covid. Auðvitað áttaði maður sig á því að hérna er kannski efnahagsvanda íslensku þjóðarinnar í dag að finna. Hann er sá að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að færa völdin á efnahagsmálum núna á þessum viðsjárverðu tímum yfir til vinstri flokksins í samstarfinu sem er aðeins gjarnari á að eyða á tímum þegar við þurfum svo sannarlega að sýna aðhald. Hvers vegna þurfum við að sýna aðhald? Við þurfum að gera það til þess að ná niður verðbólgu og til þess að ná niður vöxtum vegna þess að til lengri tíma þá hagnast heimili, fyrirtæki og allt stofnanaumhverfi okkar best með því. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Felst í þessum orðum forsætisráðherra ekki alger afneitun á því hvert verkefni okkar er, bæði með þessari fjármálaáætlun og með þeirri sýn sem við viljum hafa til efnahagsmála og ríkisfjármálanna til lengri tíma?