Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:09]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég fylgdist ekki með umræðum hér við forsætisráðherra og ég ætla ekki að fara að svara fyrir þau orð sem hv. þingmaður segir að hún hafi haft hér uppi um útgjöld hins opinbera. Þessi ríkisstjórn hefur fjárfest í mjög stórum málaflokkum og svarað kalli hinna stóru málaflokka eins og heilbrigðiskerfisins, í málefnum aldraðra og fleiri til þess að gera betur. Þar sem ég hef síðan bent á er að við þurfum að skoða til lengri tíma og erum að stíga í þessari fjármálaáætlun ákveðin hagræðingarskref, m.a. í því sem snýr að mínu ráðuneyti, því sjóðaumhverfi sem ég hef farið hér yfir í dag. Ég hef líka fellt Raunvísindastofnun Háskóla Íslands undir Háskóla Íslands og reynt að einfalda stjórnsýsluna, er að ýta undir samstarf og sameiningu háskólanna, minnka yfirbyggingu skólanna, setja það fjármagn sem er að koma inn núna í háskólana í ný verkefni, ekki í óbreytt kerfi. Ég er þar að horfa til þess að stærsta áskorun þessarar fjármálaáætlunar er baráttan gegn verðbólgu og þá verðum við auðvitað að sýna það að við séum ekki að fara í of mikil útgjöld á öllum málefnasviðum heldur ætlum við að halda að okkur höndum og berjast gegn verðbólgu því að það er stærsta lífskjaramál þjóðarinnar að við náum henni niður. En á sama tíma þurfum við að fjárfesta til lengri tíma og sjá hvernig við ætlum að vaxa út úr vandanum og fjölga stoðum íslensks efnahagslífs. Og það er að mínu mati, eins og hv. þingmaður kom sjálfur inn á, í gegnum nýsköpun og háskólana. Þar eru gríðarleg tækifæri til að gera betur. Fyrst og fremst, í umhverfi allra þessara fyrirtækja, skiptir máli að við séum samkeppnishæf, samkeppnishæf um fólk, samkeppnishæf gagnvart kerfinu og samkeppnishæf þegar við berum okkur saman við önnur lönd. Við höfum stigið gríðarlega stór skref í að vera samkeppnishæf við önnur lönd er kemur að t.d. stuðningsumhverfi nýsköpunar. En við þurfum að gera miklu betur ef við ætlum að sýna það að kerfið okkar geti t.d. verið einfaldara og annað. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að ríkisstjórnin sé að halda vel á spilunum, það sé hægt að gera betur á mörgum sviðum en það er líka mjög mikilvægt að hún horfi ekki til Reykjavíkurborgar í þeim efnum.