Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:18]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Miðað við þær beiðnir og óskir sem liggja fyrir í þessum þingsal frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar um enn þá meiri og aukin útgjöld á öllum málasviðum ráðuneyta þá held ég að það hafi tekist þokkalega vel til. Það sem við erum að horfa á er að reyna að sækja fram með langtímamarkmið að leiðarljósi. Eins og ég sagði áðan, og var ég mjög skýr um það og svaraði hv. þingmanni mjög vel, þá tel ég að við getum alltaf gert betur en þá þurfa líka hv. þingmenn að þora að styðja þau mál þegar lagt er til að hagræða og draga úr og einfalda kerfi, sem hv. þingmaður hefur ekki alltaf gert hér í þessum sal. Ég held að það séu gríðarlega mikil tækifæri í því að innleiða nýsköpunarlausnir hjá hinu opinbera til að draga úr útgjöldum og fjármunum. Þá þarf einmitt að styðja slíkar leiðir en þora líka að taka erfiðar ákvarðanir um breytingar og styðja þær. Ég tel það fagnaðarefni að hv. þingmaður ætli að styðja okkur í því af því að það vantar of oft talsmenn þeirra sem vilja fara betur með fé en ekki bara þá sem koma upp í þetta púlt hér og óska eftir auknum fjármunum í alla mögulega málaflokka sem við gætum jú gert betur í. Það er gott að hv. þingmaður komi hér og minni ríkisstjórnina, og alla, á að það er ekki það ekki hægt að segja að auknir fjármunir skili sér í aukinni þjónustu og bættri þjónustu. En varðandi hvernig þessi ríkisstjórn hefur haldið á málunum þá tel ég að hún hafi gert ansi vel. Hér er verið að berjast gegn verðbólgu. Hér er verið að stíga varfærin skref til framtíðar. Hér er verið með langtímamarkmið að leiðarljósi í uppbyggingu lands og þjóðar. Það er auðvitað hjákátlegt að þingmenn, ekki sá sem hér spurði, en þingmenn úr flokkum sem reka Reykjavíkurborg eins og hún er rekin ráðist á þessa fjármálaáætlun. (Gripið fram í.)