Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að gera grein fyrir þeim málefnum og mikilvægu verkefnum sem heyra undir ráðuneyti mitt, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Eitt af stóru verkefnunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fjallar um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Í þessari fjármálaáætlun er loks tryggð fjármögnun í heildarendurskoðun kerfisins. Umbylting kerfisins mun marka vatnaskil þar sem aukin áhersla verður á virkni fólks og tækifæri á vinnumarkaði fyrir þau sem hafa mismikla starfsgetu samhliða því að tryggja kjör þeirra sem ekki hafa kost á þátttöku í atvinnulífinu. Fjárveitingin þýðir að við getum gert kerfið einfaldara, gagnsærra og réttlátara og stutt enn frekar við þau sem lökust hafa kjörin. Ég er stoltur af þessari áherslu ríkisstjórnarinnar sem sýnir að forgangsraðað er í þágu einstaklinga sem hafa enga eða mismikla starfsgetu. Fyrirhugaðar breytingar lúta að snemmtækri íhlutun fyrr í veikindaferli en nú er og einnig fyrirbyggjandi aðgerðum á vinnumarkaði. Það er stefnt að þverfaglegu sérfræðimati á vinnugetu einstaklinga sem byggist á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum sem komi í stað gildandi örorkumats. Með breytingunum gefast mörg tækifæri til að veita einstaklingsmiðaða þjónustu auk þess sem efla á þjónustu er styður fólk til virkni, þar á meðal þátttöku á vinnumarkaði. Enn fremur er lögð áhersla á að greiðslukerfið verði þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku. Þá er í stjórnarsáttmála lögð áhersla á valfrelsi þeirra einstaklinga sem nú eru með fullt örorkumat um það hvort þeir færist yfir í nýtt örorkulífeyriskerfi við upptöku þess. Frá og með árinu 2025 er árlega gert ráð fyrir rúmlega 15 milljarða framlagi til nýs greiðslukerfis sem eykst í rúma 16 milljarða árið 2026, auk þess sem framlag til vinnumarkaðsúrræða og kostnaður við innleiðingu og rekstur kerfisins verður um 2,7 milljarðar á tímabili áætlunarinnar.

Annað verkefni í stjórnarsáttmála er síðan heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Stýrihópur undir stjórn ráðuneytis míns og heilbrigðisráðherra hefur leitt þá vinnu þvert á ráðuneytin. Niðurstaða hópsins var nýverið lögð fram sem þingsályktunartillaga með aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028. Leiðarljós áætlunarinnar er að samþætta félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk. Fjárframlag að fjárhæð 700 millj. kr. á tímabili fjármálaáætlunarinnar mun standa straum af fjármögnun aðgerðaáætlana hjá mínu ráðuneyti.

Eitt af verkefnunum er síðan málefni útlendinga. Í stjórnarsáttmála er getið um gerð heildstæðrar og skýrrar stefnumótunar sem miðar m.a. að því að fólk sem sest hefur að á Íslandi hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Þessi vinna er hafin og ráðgert að henni ljúki á yfirstandandi ári. Það hafa orðið miklar breytingar á liðnu ári vegna aukins fjölda fólks á flótta hingað til lands. Árið 2022 varð fordæmalaus fjölgun á umsækjendum um alþjóðlega vernd og verndarveitinga í kjölfarið. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti ber nú ábyrgð á málaflokki sem varðar þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem áður var á forræði dómsmálaráðuneytisins og veitir Vinnumálastofnun þjónustuna við umsækjendur. Vegna mikillar fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd er gert ráð fyrir tímabundinni aukningu útgjalda að fjárhæð 5 milljarða kr. árlega í tvö ár vegna þjónustunnar á tímabili fjármálaáætlunar. Einnig koma aukin framlög vegna endurgreiðslna til sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu vegna félagslegrar aðstoðar við erlendra ríkisborgara sem fengið hafa vernd hér á landi. Á tímabili áætlunarinnar nema þau framlög 11,7 milljörðum eða um 2,3 milljörðum árlega. Að auki eru tímabundin framlög, 2 milljarðar, vegna íslenskukennslu, atvinnuleitar og húsnæðismála vegna flóttafólks og einnig er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna samninga við sveitarfélög vegna samræmdrar móttöku flóttafólks en nú hafa 11 sveitarfélög skrifað undir slíkan samning við ráðuneytið. Á tímabili áætlunarinnar er því gert ráð fyrir samtals 3,7 milljörðum til þess verkefnis. Samræmd móttaka felur í sér víðtækan stuðning þar sem áhersla er á samfellda þjónustu á milli þjónustukerfa og samræmda þjónustu óháð því í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Munu framlögin renna styrkum stoðum undir virkni og þátttöku fólks sem hingað kemur svo það fái tækifæri til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu og á vinnumarkaði án þess að uppruni og þjóðerni hafi þar áhrif á. Þetta er mikilvægur liður í að flýta og auðvelda fólki að festa rætur.

Í lokin vil ég nefna eitt mikilvægt verkefni sem unnið er að í ráðuneyti mínu og það varðar málefni fatlaðs fólks, en unnið er að gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.