Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:26]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. formanns fjárlaganefndar sem sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að fjármálaáætlunin væri ekki nógu gagnsæ. Í áætluninni er t.d. tíundaður væntanlegur fjöldi eftirlaunafólks árið 2040 og 2060 en ekkert er um áætlaðan fjölda 2024 og 2028, sem excel-skjalið í ráðuneytinu hlýtur þó að byggja á. Ég óska svars hæstv. félagsmálaráðherra við því.

Þessi ríkisstjórn hefur setið í hartnær sex ár og nú liggur fyrir fjármálaáætlun til ársins 2028. Fjármálaáætlunin gefur engin fyrirheit um að leiðrétta eigi kjör eldra fólks og ef þetta gengur eftir munu átta ár líða án lagfæringa. Þetta eru skilaboðin frá ríkisstjórninni samkvæmt fjármálaáætluninni.

Síðustu ár hefur vísitöluspá alla jafna verið vanáætluð með tilliti til lífeyris í fjárlagafrumvarpi hvers árs. Sjaldnast hefur þetta verið bætt lífeyristökum og hefur orðið til þess að viðvarandi kjaragliðnun hefur verið á milli fólks á vinnumarkaði og lífeyristaka. Ekki er hægt að sjá annað af fjármálaáætluninni en að þessari kjaragliðnun sé ætlað að vera. Hin reglulega skekkja á vísitöluspá fjármálaráðuneytisins hefur oftar en ekki gengið í berhögg við vísitöluspá Hagstofu og Seðlabankans eins og gerðist í fjárlögum þessa árs. Vægast sagt er reglulega gengið verulega á svig við 69. gr. laga um almannatryggingar. Í ár, 2023, er gert ráð fyrir að verðbólga verði 8,2% en ekki 5,6% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og því eðlilegt að spyrja ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við og jafna mismuninn á gildandi fjárlögum og rauntölum verðlagsbreytinga varðandi lífeyri þeirra sem eiga lífsafkomu sína undir.