Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:41]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi erum við með stafrænt teymi innan ráðuneytisins sem vinnur sérstaklega að stefnumótunarmálum og nýsköpun og ég hef styrkt ýmis verkefni sem snúa að nýsköpun. En aðallega langar mig að beina svarinu samt að því hvernig við getum tryggt að hin mikilvæga stafræna vegferð nýtist öllum í samfélaginu. Hér horfi ég ekki síst til málaflokks fatlaðs fólks og til fatlaðs fólks sem í mörgum tilfellum getur ekki nýtt sér þá stafrænu vegferð sem er í gangi. Þar höfum við tekið í gagnið, gerðum það núna í október sl. ef ég man rétt, stafrænan talsmannagrunn sem gerir persónulegum talsmönnum fatlaðs fólks kleift að nálgast stafrænt pósthólf umbjóðanda síns. Það stendur síðan til að tengja við talsmannagrunninn þjónustu eins og frá hinu opinbera, við getum talað um Heilsuveru t.d. eða frá bönkunum eða öðrum þjónustuaðilum sem eru nú allmargir á Íslandi í dag, þannig að persónulegu talsmennirnir geti með því að nota sín rafrænu auðkenni nýtt stafræna þjónustu sem stendur öllu fólki til boða.

Við undirrituðum nýlega fjórir ráðherrar, fjármála-, heilbrigðis-, háskóla- og ég, viljayfirlýsingu um að þróa áfram lausnir að rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk og sama gerðu félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna á fundi okkar í Reykjavík í mars sl. Við Íslendingar höfum sett stafræna þróun fatlaðs fólks í forgang í norrænu samstarfi á sviði félagsmála og ég vonast til þess að við getum (Forseti hringir.) á næstu árum stigið stór skref í áttina að því að jafna hér aðstöðu fólks þegar kemur að þessu. Sú vegferð er svo sannarlega hafin og við vinnum ötullega að því í ráðuneytinu.