Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna hér í dag. Kannski hefur ráðherrann ekki verið alveg nógu skýr í framsögu sinni hér áðan en á árinu 2025 bætast 15 milljarðar við til að ráðast í þá kerfisbreytingu sem fram undan er, sem verða þá varanlega komnir inn í ramma, og árið 2026 bætast um 1,5 milljarðar síðan ofan á það. Alls eru þetta því um 16,5 milljarðar sem er aukningin. Þannig að yfir allt tímabilið er það fimm sinnum það eða einhverjir rúmir 60 milljarðar. Það sem bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra nefndu þegar fjármálaáætlunin var kynnt núna í mars var að við myndum reyna að bregðast við þeirri miklu verðbólgu sem núna geisar og áhrifum hennar hvað varðar viðkvæma hópa í samfélaginu og það á svo sannarlega við um örorkulífeyrisþega. Við gerðum svipað í fyrra þar sem við hækkuðum bætur almannatrygginga um mitt ár. Það er verið að útfæra þetta atriði akkúrat núna sem er þá auðvitað hluti af þeim verðlagshækkunum sem ávallt verða um áramót en í svona árferði er enn þá mikilvægara að geta gripið inn í og látið a.m.k. einhvern hluta þeirra koma fram á miðju ári sem að sjálfsögðu nýtist þá enn þá betur fyrir fólk sem nýtur greiðslu almannatrygginga. Síðan er auðvitað mjög langt mál að fara inn í þá kerfisbreytingu sem hér er um að ræða. Við höfum vissulega rætt hér áður um þetta, ég og hv. þingmaður, en sjálfsagt að taka frekari umræðu um það á eftir.