Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:55]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Á einum stað hafði ég alla vega á réttu að standa, að hv. þingmaður kom svo sannarlega með tölur í púltið og þakka ég hv. þingmanni að sjálfsögðu fyrir það. Ég vil nú fá að taka aðeins undir með hv. þingmanni þegar hann dregur þetta atriði hér fram vegna þess að í fyrsta lagi getur verið erfitt að setja þessa mælikvarða, sama hversu mikilvægt það er, en auðvitað er ekkert mjög langt síðan við byrjuðum á þessu. Þess vegna er það nú þannig að við erum að slípast til í þessu í ráðuneytinu að mínu mati. Hér nefnir hv. þingmaður þá mælikvarða sem eru á bls. 359, um hlutfall lífeyrisþega með of- eða vangreiðslur innan 50.000 kr. viðmiðunarmarka. Auðvitað viljum við að þetta hækki. Okkar mat er að þetta muni hækka með nýju örorkulífeyriskerfi þegar við erum búin að breyta því. Ég stefni að því að koma með frumvarp hvað þær kerfisbreytingar varðar inn í þingið í haust og að það taki þá gildi 1. janúar 2025.

Hv. þingmaður nefnir hér líka í málefnum fatlaðs fólks fjölda sveitarfélaga sem hafa samþykktar nýsköpunaráætlanir, held ég að hv. þingmaður hafi nefnt. Þetta er eitthvað sem að mínu viti hefur gengið hægar heldur en vonir stóðu til. Það sem við getum gert er að halda áfram að ýta á þetta og ég bind vonir við að með gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk komi meiri slagkraftur í þeim málaflokki og þar með talið hvað varðar mælikvarða í fjármálaáætlun.