Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:00]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi langar mig að benda á að ég reyndar þekki ekki vel til þeirra viðmiða sem eru í barnabótunum þar sem þær heyra ekki undir mitt ráðuneyti. Þannig að ég ætla að skauta fram hjá því að svara því. Hvað varðar aðra þætti og mælikvarða sem hv. þingmaður kemur inn á þá langar mig eiginlega að segja að hér er það besta mat sem sérfræðingar ráðuneytisins setja fram og ég ætla ekkert að efast um að það er gert af kostgæfni og þeirri nákvæmni sem fyrir hendi er hverju sinni.

Mér þykir ágætt að hv. þingmaður skuli draga fram þetta atriði varðandi kostnaðar- og ábatagreiningu vegna þess að það er a.m.k. atriði sem ég hef lagt áherslu á í þessum stóru verkefnum sem ég er að stýra í ráðuneytinu hjá mér, m.a. í verkefninu Gott að eldast þar sem við erum að greina hvað kostar að ráðast í þessar breytingar og hvaða ábata það er líklegt til að skila, hvort heldur sem við erum að horfa þá á sveitarfélög eða ríki. Sama með örorkulífeyriskerfið, að sjálfsögðu er þar mat á kostnaði. Þessir 16 milljarðar sem hv. þingmaður nefndi og koma fram í fjármálaáætlun eru út frá ákveðnu mati sem við göngum út frá við þetta. Auðvitað verður alltaf að vera einhver óvissa sem fylgir því þegar við erum ekki búin að leggja fram frumvarpið en undirbúningurinn að frumvarpinu er kominn alllangt og ég vonast til þess að það fari í samráðsgátt núna í maí eða júní. Þetta er því ekki út í loftið. Ég gat ekki lagt þetta fram í síðustu fjármálaáætlun vegna þess að við vorum ekki komin svona langt en ég vil meina að við séum komin þetta lengra núna. Þar erum við auðvitað að horfa líka til þess að vinna greiningar (Forseti hringir.) á kostnaði og ábata við kerfið. Ef við bara miðum við þá breytingu sem orðið hefur á síðustu árum (Forseti hringir.) með minna nýgengni örorku vegna áherslu á endurhæfingu (Forseti hringir.) þá erum við að sjá árangur sem skilar sér bæði fyrir fólkið en líka fyrir budduna.

(Forseti (DME): Ég bið hæstv. ráðherra og hv. þingmenn að virða ræðutíma sem er tvær mínútur.)