Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:05]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna í dag. Í stuttu máli sagt þá má segja, ef við skoðum aðeins þjónustuna og hvaða breytingar eru fyrirhugaðar hvað hana varðar, að við erum í rauninni alltaf að miða við það að geta aukið þjónustuna við einstakling sem dettur út af vinnumarkaði með því að grípa snemma inn í, sem eykur líkurnar á því að viðkomandi komist aftur út á vinnumarkað. Rannsóknir sýna okkur að það eru mun meiri líkur á því að viðkomandi einstaklingur fari aftur á vinnumarkað ef nægilega snemma er gripið inn í eftir að hann dettur út af vinnumarkaði. Til þess að gera það þá erum við að horfa á að í stað þess kerfis sem við höfum í dag þá séum við með kerfi þar sem við erum með teymi með fulltrúum félagsþjónustunnar, heilsugæslunnar, VIRK – starfsendurhæfingar, Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar sem þannig fylgi viðkomandi einstaklingi eftir, hafi mál hans á sínu borði, þannig að það séu minni líkur á að hann falli á milli kerfa eða verði fyrir greiðslutapi vegna þess að hann er að bíða eftir einhverju í kerfinu. Allt miðar þetta við það að reyna að auka eins og hægt er þá þjónustu sem á að vera fyrir hendi til að auka virkni fólks, ekki síst til að koma því aftur út á vinnumarkaðinn. Til að styðja við þetta erum við með að störfum samhæfingarnefnd um virkni og velferð á vinnumarkaði þar sem við erum m.a. að vinna að því að fjölga hlutastörfum og sveigjanlegum störfum, vinna sérstaka stefnu fyrir ungt fólk sem hefur dottið út af vinnumarkaði (Forseti hringir.) og auka stuðning við vinnumarkaðsúrræði fyrir fólk sem er með skerta starfsgetu.