Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:09]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það sé gott að framhaldsfræðslan sé komin inn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til að auka tengslin við vinnumarkaðinn en líka til að tengja betur við viðkvæma hópa. Markmið framhaldsfræðslunnar er m.a. það að auka menntunarstig í landinu. Við þurfum að tryggja að framhaldsfræðslan sé þessi fimmta stoð menntakerfisins og hún er mikilvæg til að búa til tækifæri fyrir fólk. Þar tel ég að við þurfum að gera betur, m.a. í því sem snýr að innflytjendum og fötluðu fólki. En hv. þingmaður spyr hér m.a. út í námskrárnar og þær eru jú tengdar við grunnþrep evrópska tungumálarammans og hann er síðan tengdur við hæfniramma um íslenska menntun sem lýsir þá öllu okkar menntakerfi út frá stigvaxandi hæfniviðmiðum. En þessar námskrár þarf að mati sérfræðinga að endurskoða með tilliti til nýrra áherslna og við erum í rauninni með tvö verkefni í gangi í ráðuneytinu hvað það varðar. Það er annars vegar endurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og laga um framhaldsfræðslu frá 2010 og í öðru lagi stendur til að endurskoða þessi þrepaskiptu hæfniviðmið námskránna og gera þau ítarlegri þannig að námskrárnar verði betra leiðarljós í kennslu og erlendir þátttakendur viti betur þyngdarstig þeirra námskeiða sem þeir sækja. Þetta verkefni verði unnið í samstarfi við ráðuneyti sem fara með málaflokk íslenskunnar og þau eru fjögur í dag. Þetta er jafnframt aðgerð í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.