Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:16]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég bíð eftir að fá að heyra skoðanir stéttarfélaga og skoðanir lífeyrissjóða á slíkri breytingu. Ef þetta á að falla niður mun það að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á stöðu margra lífeyrissjóða til að greiða öðrum félagsmönnum eftirlaun.

En mig langar að nýta tíma minn í seinni hlutanum að velta vöngum yfir stöðu ríkissáttasemjara. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 segir í 27. gr. um hlutverk ríkissáttasemjara og miðlunartillögu, með leyfi forseta:

„Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.“

Það kom berlega í ljós að þetta ákvæði er í raun marklaust eftir að stéttarfélagið Efling neitaði ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrár eins og frægt er orðið. Niðurstaðan varð sú að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fór ekki fram og ríkissáttasemjari hafði í raun engin úrræði til að þrýsta á um afhendingu kjörskrár. Mikil umræða hefur átt sér stað um hvort ekki sé rétt að skýra heimildir ríkissáttasemjara til framlagningar miðlunartillögu og skyldur stéttarfélaga til afhendingar kjörskrár, m.a. innan ríkisstjórnarinnar og hjá einstökum ráðherrum. Með þessari uppákomu er komin upp réttaróvissa sem þarf að eyða og það verður ekki gert nema með því að breyta lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar sem búið er að undirrita skammtímasamninga eru einungis nokkrir mánuðir í að ráðast þurfi í gerð samninga á nýjan leik og þá er nauðsynlegt að það sé engum vafa undirorpið að hlutverk ríkissáttasemjara sé skýrt og þær heimildir sem hann hefur yfir að ráða liggi fyrir. Þannig er það ekki í dag. Maður hefði því haldið að á málaskrá ríkisstjórnarinnar yrði að finna frumvarp til að breyta þessu en þess sjást engin merki.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hverju sæti. Þarf ekki skýrari leikreglur ef til átaka kemur á vinnumarkaði?