Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:23]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna. Ástæðan fyrir því að þessar hækkanir sem um er að ræða hér í fjármálaáætlun eru settar tímabundið, þ.e. á árin 2024 og 2025, er í rauninni sú óvissa sem er mat flestra að sé uppi. Þegar við horfum til þessara þátta eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu er ljóst að fjölgunin hefur orðið mikil en það hefur líka orðið mikil fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela. Þess vegna er nú verið að horfa til þess að vonandi geti bæði aðstæður í Venesúela batnað og að innrásarstríði Rússa í Úkraínu linni og var ákveðið að setja þetta fram til tveggja ára. Það má alveg gagnrýna það af hverju þetta eru tvö ár en ekki þrjú eða fjögur eða hvernig sem það er, en almennt er talið að við munum þurfa að bregðast meira við heldur en hefur verið á undanförnum árum. Það er kannski það sem er meint í því seinna atriði sem hv. þingmaður nefndi. Við höfum aldrei áður séð jafn margt fólk á flótta í heiminum og núna, við erum búin að rjúfa 100 milljóna múrinn, þannig að til lengri tíma litið þá teljum við að það muni verða fleiri. En þessi mikli fjöldi sem hingað hefur komið, við erum að setja fram varlega áætlað til tveggja ára hvað það muni kosta. Við erum þegar að sjá, eins og kemur reyndar fram í fjármálaáætlun, að áætlanir bara fyrir árið 2023, sem við vorum að reyna að meta við gerð fjárlaga í fyrra, munu væntanlega ekki ganga eftir og fleira fólk koma hingað og fá vernd heldur en útlit var fyrir á þeim tímapunkti þegar fjárlögin voru undirbúin.