Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hvað varðar samræmda móttöku flóttafólks þá erum við að gera ráð fyrir aukningu um 900 milljónir á árinu 2024 sem haldi sér út árið 2026 og lækki síðan þar sem við erum að miða við að mögulega muni flóttafólki fækka, ef rofar til í innrásarstríðinu í Úkraínu og mögulega ástandið batnar á þeim svæðum í heiminum sem hafa mest verið að sækja hingað, niður í 500 milljónir árlega. Ég er þeirrar skoðunar að samræmda móttakan sé okkar besta tæki til að vinna með sveitarfélögunum og þetta eru auðvitað þeir samningar sem eru þá við sveitarfélögin um fólk sem er búið að fá vernd. Þetta er viðbótarkostnaður sem hlýst af og kemur til hjá sveitarfélögunum vegna þess að þau eru að taka á móti fólki og við erum að reyna að samræma það þá á milli sveitarfélaga. Það eru komin 11 sveitarfélög inn í þessa samninga sem er bara mjög jákvætt, þeir eru hins vegar bara til eins árs, gilda fyrir árið í ár, þannig við þurfum að fara að skoða það fyrir næstu ár hvað við getum lært af því sem hefur verið í gangi. Hvernig hefur gengið núna í þann tíma sem þetta hefur verið rekið og kannski ekki síst þegar svona mikill fjöldi er hingað að koma?

Hv. þingmaður nefnir líka hér á bls. 232 þar sem fjallað er um lokað úrræði. Það er eitthvað sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og ég þekki ekki til kostnaðar eða hvort hann hefur verið metinn hvað það varðar. Það er alveg rétt að eftirlitsnefnd með Schengen-samstarfinu hefur gagnrýnt þetta en við Íslendingar höfum frekar viljað hafa þetta með öðrum hætti en að hafa hér lokuð úrræði, einfaldlega af mannúðarástæðum.