Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka upp þetta brýna mál. Þetta er kannski stærsta málið sem við erum horfa á sem áskorun til framtíðar, þ.e. mönnun kerfisins. Ég kom aðeins inn á það hér í inngangi að þetta verður áskorun; þetta verður viðvarandi áskorun og þetta er áskorun sem allur heimurinn er að kljást við. Hv. þingmaður kom hér inn á það að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beitt sér mjög mikið fyrir þessum þætti. Við verðum líka að horfa til þess að þetta langvarandi álag sem fylgdi heimsfaraldri hefur haft áhrif á mönnun. Það er ljóst að þetta verður ekki leyst með einhverjum einum einföldum hætti, það þarf margvíslegar aðgerðir til að mæta aukinni þjónustuþörf.

Ég kom inn á það áðan í inngangi að lýðfræðileg þróun, öldrun þjóðarinnar, aukning í ýmiss konar sjúkdómum sem því fylgir og aukið álag á heilbrigðiskerfið, mun ýta undir þessa áskorun. Ég kom inn á þá uppbyggingu sem stendur nú fyrir dyrum og við sjáum raungerast við Hringbraut. Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum takti í því og að við náum að klára það verkefni. Ég vísaði í rammagrein 5 en þar kemur fram að það á að skila meðferðarkjarna í lok árs 2027 og rannsóknarhúsi þar sem öll rannsóknarstarfsemi spítalans verður sameinuð. Þetta mun auðvitað bæta aðbúnaðinn og skipta gífurlega miklu máli. Annar áfangi þessa verkefnis — þar munum við þurfa að taka mjög veigamiklar ákvarðanir sem snúa að göngudeildarstarfsemi ýmiss konar sem mun aukast, legurýmum og notkun annarra bygginga sem við þekkjum til, eins og Landakots og Fossvogs. Við þurfum líka að ná utan um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu almennt við eldri borgara og ná árangri í lýðheilsu.

Það eru hérna atriði sem hv. þingmaður kom inn á eins og öryggi sem skiptir mjög miklu máli. Í þessari samkeppni þá skiptir það líka máli hvernig heimurinn horfir á þessa áskorun.