Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar spurningar. Aðeins til að ljúka við mönnunina þá er það mikil áskorun að manna kerfið til framtíðar. Ég nefndi hér að það er fjölmargt sem þarf að koma til. Það þarf að fjölga nemendum í heilbrigðistengdum greinum og efla sérnám lækna enn frekar. Við erum búin að gera ansi vel í því og höfum verið að endurskoða reglur sem snúa að sérnámi lækna og efla sérnámið, vegna þess að við eigum mikið af nemendum í grunnnámi erlendis og þeir koma þá frekar hingað, ég tala nú ekki um ef okkur tekst að bæta aðbúnaðinn. Við erum að vinna með háskóla- og nýsköpunarráðherra að því að efla hér hermisetur og færnibúðir fyrir heilbrigðistengt nám. Við erum að reyna að skapa samkeppnishæft umhverfi.

Ég vil líka nefna, af því að hv. þingmaður kom inn á öryggi, að það bíður hér að mæla fyrir máli sem snýr að hlutlægri refsiábyrgð sem styrkir öryggismenninguna í kerfinu, bæði fyrir starfsfólkið og fyrir sjúklingana. Allar rannsóknir segja okkur nefnilega að þegar óvænt atvik koma upp í heilbrigðisþjónustunni þá er það oftast vegna samhangandi verklegra þátta í starfseminni. Um það snýst það frumvarp, þannig að við eigum eftir að taka það til frekari umræðu.

Varðandi samninga við sérfræðilækna þá vil ég aftur segja hátt og skýrt: Ég legg mikla áherslu á þetta og hef komið þeim skilaboðum mjög skýrt á framfæri við Sjúkratryggingar. Ég bind vonir við að aðilar nái saman. Það er mjög mikilvægt. Af því að hv. þingmaður kom inn á aukagjöldin þá verða að nást samningar. Ég hef lagt það til að við horfum þá til skemmri tíma (Forseti hringir.) og förum saman í það að ná utan um aðgerðaskrána. Ég segi líka hátt og skýrt: Nei, sá er hér stendur er ekki búinn að gefast upp fyrir þessu og þetta er forgangsmál.