Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar spurningar. Ef við snúum okkur að heilsugæslunni þá vil ég taka það fram að samstarf HSS og sveitarstjórnarfulltrúa hefur verið að eflast. Ég kannaði hvað væri skynsamlegast að gera vegna þess að það er rétt að með 30.000 manna upptökusvæði blasti bara við að í langan tíma hefur heilsugæslan verið allt of lítil og gat ekki annað þessu. Nálægðin atvinnulega séð við höfuðborgarsvæðið er þannig að það er kannski ekki óeðlilegt að hærra hlutfall, en kannski ekki alveg svona hátt eins og hv. þingmaður dró hér fram, sé skráð í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Það getur nýst sumum sem eru að vinna í bænum o.s.frv. Ég kannaði þetta og vann þetta vel með stofnuninni; hvað væri skynsamlegast að gera. Það vill brenna við, af því að hv. þingmaður kemur inn á einkareksturinn, að ef annar rekstur opnar í þessari manneklu sem við erum að kljást við, eða áskorun um að manna stofnanir, að það flæði á milli. Nú er staðan þannig að það er enginn læknir sem er að vinna á HSS sem er búsettur á svæðinu, ekki mér vitanlega. Við unnum þetta þannig — hvað væri skynsamlegt að gera, að það myndi tryggja að við myndum ekki grafa undan mönnuninni á stofnuninni sjálfri. Þannig að já, það er búið að semja við heilsugæsluna Höfða um rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar við Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ og það mun hefjast núna á haustmánuðum og létta þá undir með stofnuninni. Svo höldum við áfram uppbyggingunni í Njarðvík. Þetta á allt saman að vera til þess gert að efla þjónustuna við íbúana á svæðinu sem hefur fjölgað jafn mikið og raun ber vitni og hv. þingmaður kom inn á hér.