Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði aðeins til að ræða framtíðarsýnina sem kemur fram í fjármálaáætlun á málefnasviðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Þar stendur að framtíðarsýnin sé sú að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða. En þegar heildarútgjöld til heilbrigðismála í samanburði við önnur OECD-ríki eru skoðuð þá komum við skammarlega illa út. Ísland er að skora lægst af öllum Norðurlandaþjóðunum þar. Við horfum fram á neyðarástand sem virðist vera viðvarandi á bráðamóttökunni, neyðarástand í heilbrigðiskerfinu öllu vegna manneklu. Traust til heilbrigðiskerfisins hríðfellur en samkvæmt Gallup hefur traust til heilbrigðiskerfisins minnkað um 22 prósentustig á síðustu tveimur árum. Ég ímynda mér að margir aðrir í samfélaginu upplifi það líka sem visst diss, afsakið slettuna, forseti, að tala um heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða sem einhverja framtíðarsýn þegar getuleysi stjórnvalda til að lyfta heilbrigðismálum upp úr því viðvarandi neyðarástandi sem hefur fengið að viðgangast í allt of langan tíma virðist vera algjört. Ef raunverulegur vilji væri til þess hjá ráðherra og ríkisstjórn að stefna að því háleita markmiði að búa hér að heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða þá myndi fylgja því eitthvert fjármagn.

Nú er ég ekki að tala um fjármagn í byggingu nýs Landspítala eða fjármagn vegna fjölgunar og öldrunar íbúa heldur fjármagn til að efla kerfið en ekki svona rétt fleyta því áfram í status quo. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hann telur þetta (Forseti hringir.) sem ég myndi vilja kalla sýndarmennsku með þessu markmiði vera til þess fallið að auka traust á heilbrigðiskerfinu, sem ég held að sé gífurlega mikilvægt? (Forseti hringir.) — Bara ef við horfum raunsætt á stöðuna núna, á skort á raunverulegu fjármagni og vilja til að byggja þetta kerfi upp.