Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar til að ræða aðeins áfram við hæstv. ráðherra um aðgerðir til að efla traust á heilbrigðiskerfinu því að það er gríðarlega mikilvægt. Alvarleg veikindi koma fólki oftast algerlega í opna skjöldu og þessi staða að verða veikur og vera notandi þessarar þjónustu, heilbrigðisþjónustu, er bara miserfið fyrir fólk. Fólk er með misgott bakland, getur verið með misgóða þekkingu á réttindum sínum og því hvernig þjónustukerfin okkar virka, enda er þetta allt saman frekar flókið. Það er alls konar ágreiningur sem getur sprottið upp innan heilbrigðiskerfisins og það er óviðunandi staða að notendur heilbrigðisþjónustu eigi sér engan málsvara þegar ágreiningur kemur upp og mér finnst ég vera að sjá það núna trekk í trekk í opinberu tali, bara í fréttum og annað, að við erum að sjá fréttir af erfiðleikum fólks innan heilbrigðiskerfisins og svo fréttir af frekar útbreiddum þvingunum innan heilbrigðiskerfisins.

Í velferðarnefnd er núna til meðferðar frumvarp sem ég hef lagt fram ásamt þingmönnum úr fjórum flokkum um að sett verði á fót embætti umboðsmanns sjúklinga sem hafi bæði það hlutverk að vera opinber talsmaður sjúklinga gagnvart veitendum heilbrigðisþjónustu, en einnig að vera tengiliður sjúklings og aðstandenda við starfsfólk og stjórnendur heilbrigðisstofnana hvað varðar kvartanir um þjónustu. Hann á líka að hafa ákveðið frumkvæðishlutverk hvað varðar málefni og réttindi sjúklinga en nú kemur fram í fjármálaáætlun að meginmarkmið heilbrigðisþjónustu sé að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað. Þetta er ofboðslega mikilvægt markmið, forseti, og ég tel það að veita sjúklingum og notendum heilbrigðisþjónustu rödd og málsvara vera stórt skref í átt að því markmiði.

Mig langar til að spyrja heilbrigðisráðherra hvort hann taki ekki undir með mér að það væri skref í rétta átt að koma þessu embætti á fót.