Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna og þessar góðu ábendingar. Það er gert ráð fyrir lýðfræðilegri þróun til að mæta því í rekstrinum. Til að mynda vil ég draga fram að í fjárlagaumræðunni á milli 1. og 2. umr., af því að hv. þingmaður nefnir málefnasvið 23, þá bættum við 2 milljörðum inn í rekstur Landspítalans og er það varanlegt framlag sem kemur síðan á hverju ári. Einnig bættum við 250 milljónum inn í rekstur Sjúkrahússins á Akureyri, en það er í sambærilegum hlutföllum og líka varanlegt; 2 milljörðum inn í heilsugæsluna og þá þjónustu og sérstöku framlagi til heimahjúkrunar upp á 300 millj. kr. Það er rétt að ólíkt rekstrarform er á heimahjúkruninni, en það er m.a. til skoðunar í aðgerðaáætluninni um þjónustu við eldri borgara, sem hefur fengið nafnið Gott að eldast. Hér á höfuðborgarsvæðinu er það tvískipt; Reykjavíkurborg sér um heimaþjónustu með þjónustusamningi við Sjúkratryggingar, í Suðvesturkjördæmi er það Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og svo eru heilbrigðisstofnanirnar með þetta í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig. Þarna þyrftum við að taka fram íbúafjöldann, þjónustuna og samningana og setja þetta allt í einhvers konar samanburð, sem kannski er hægt þegar við erum í fjárlagavinnu. Mér finnst þetta mjög góðar ábendingar hjá hv. þingmanni og þetta eru raunveruleg verkefni til umræðu og til að vinna í fjárlaganefnd. Við þurfum frekari greiningar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Ég get lítið annað en verið ánægður með þessar ábendingar en get ekki svarað þeim til hlítar með öðru en því sem ég hef reynt að koma á framfæri hér.