Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Nú þegar við botnum þessa fyrri umr. um fjármálaáætlun þá liggur fyrir álitsgerð frá fjármálaráði og þar kemur fram gagnrýni sem ég vil meina að sé að mörgu leyti í samræmi við þau sjónarmið sem við í Samfylkingunni höfum haldið á lofti undanfarnar vikur og mánuði. Til að mynda finnur fjármálaráð sérstaklega að því að aðhaldið í ríkisfjármálum sé ekki nægilegt. Það stendur til að reka ríkissjóð með halla út 2027 þrátt fyrir blússandi hagvöxt og hátt atvinnustig. Fjármálaráð talar beinlínis um lausung í fjármálastjórninni í þessu samhengi þar sem ófyrirséðum tekjuauka sé varið alltaf beint til nýrra útgjalda. Þetta er nálgun sem við í Samfylkingunni höfum varað við og einmitt þess vegna höfum við bakkað upp útgjaldatillögur okkar með tekjuöflunartillögum. Það er nefnilega óábyrgt og ósjálfbært til lengdar að byggja varanlega útgjaldaaukningu á óvæntum tekjum og hvað þá verðbólgufroðu eins og nú er.

Fjármálaráð kemur inn á það í sinni umfjöllun um samspil ríkisfjármála og peningastjórnunar að þau skilaboð sem stjórnvöld senda hverju sinni geti haft talsverð áhrif á verðbólguvæntingar. Það verður að gera þá kröfu til fjármálaráðherra, forseti, að hann tali og hegði sér eins og stjórnandi en ekki eins og áhorfandi. Það gengur t.d. ekki að ráðherra sé alltaf einhvern veginn kveinandi eins og stunginn grís yfir því að fólk hafi ekki trú á því að honum takist að ná niður verðbólgunni eða komi hingað á Alþingi, eins og hann gerði um daginn, og segi að hann beri bara enga ábyrgð á því hvernig verðbólguvæntingar þróist. Það er ekki góður bragur á því. Fjármálaráðherra á einmitt að senda mörkuðum og senda fólkinu í landinu mjög skýr skilaboð um að hann, sem æðsti yfirmaður fjármálastjórnunar, muni ásamt Seðlabankanum beita þeim tækjum sem til eru til að berja niður verðbólguna og kæla hagkerfið, jafnvel þótt það kalli á sársaukafullar aðgerðir, jafnvel þótt það kalli á einhverjar aðgerðir sem Sjálfstæðisflokknum hugnast ekkert sérstaklega, að hann sé með báðar hendurnar á stýrinu og ætli hvergi að hvika. Þannig skilaboð á fjármálaráðherra undir núverandi kringumstæðum að senda frá sér.

Þegar fjármálaráð talar um lausung í fjármálastjórn þá er það auðvitað ekki bara áfellisdómur yfir störfum fjármálaráðherra heldur líka yfir pólitík stjórnarmeirihlutans í heild, af því að þessi viðvarandi hallarekstur stafar auðvitað að verulegu leyti af því að við erum með ólík öfl í ríkisstjórn sem togast á. Stundum hefur það reynst okkur vel að vera með svoleiðis samsetta ríkisstjórn en núna er þessi samsetning að setja mjög mikinn þrýsting á ríkisfjármálin og sjálfbærni þeirra, af því að það er hvorki vilji til þess að afla nægilegra tekna né til að halda aftur af útgjöldum. Það þurfa allir einhvern veginn að fá sitt. Afleiðingin er þá óábyrg fjármálastjórn, eins og fjármálaráð lýsir, og þar af leiðandi meiri þensla og meiri verðbólga en ella og hærri vextir yfir lengri tíma.

Í fyrri ræðu minni kallaði ég eftir markvissari aðgerðum til að verja tekjulága og skuldsett heimili í þessu verðbólguástandi. Fjármálaráð tekur í sama streng á bls. 83 í sinni álitsgerð, með leyfi forseta:

„Núverandi aðstæður mikillar verðbólgu og hárra stýrivaxta kalla eftir afar markvissum tilfærslum til þeirra sem bæði eru skuldsettir og tekjulágir og ráða þannig illa við núverandi aðstæður.“

Þessar röksemdir fjármálaráðs ríma vel við ákall okkar í Samfylkingunni um að vaxtabótakerfinu sé beitt af meiri þunga, enda eru innbyggðir þættir í reiknireglum vaxtabóta sem hindra að stuðningurinn leiti mjög ofarlega upp tekju- og eignastigann. Það er mjög auðvelt að stilla þessar fjárhæðir í vaxtabótakerfinu af til þess einmitt að tryggja að stuðningurinn sé mjög markviss.

Alþingi steig mjög mikilvægt skref fyrir jól þegar breytingartillaga okkar í Samfylkingu, um 50% hækkun á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta, var samþykkt en ég held að það sé líka full ástæða til að hækka hámark vaxtabóta sem er einmitt aðgerð sem myndi skila sér helst þangað sem þörfin er mest. Svo hef ég jafnvel enn meiri áhyggjur af fólkinu sem er fast á leigumarkaði og á einmitt ekki íbúð og er jafnvel að missa alla von um að eignast nokkurn tímann húsnæði. Til að bæta stöðu þessa fólks þarf auðvitað bæði að regluvæða leigumarkaðinn, þar höfum við í Samfylkingunni talað fyrir leigubremsu, og svo þarf að stórauka framboð af hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði. Það eru vonbrigði að rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu sé ekki fullfjármagnaður í þessari áætlun. Fyrst ríkisstjórnin stendur ekki við gefin fyrirheit hvað varðar fjármögnun samningsins þá finnst mér skipta þeim mun meira máli að lagafrumvörpin tvö, sem er vísað til í aðgerðaáætluninni sem fylgir rammasamningnum sem viðauki, komi ekki bara fram á þessu löggjafarþingi heldur verði þau samþykkt á þessu löggjafarþingi en ekki bara svæfð í nefnd af Sjálfstæðisflokknum eins og hefur nú gjarnan tíðkast þegar ríkisstjórnin lofar t.d. aðilum vinnumarkaðarins einhverju.

Þetta er eitthvað sem ég held að ríkisstjórnin verði að gera til þess að sýna að henni sé alvara með þessum rammasamningi. Sérstaklega eftir að þessi fjármálaáætlun birtist og hann er ekki fullfjármagnaður setur það finnst mér þeim mun meiri þrýsting á okkur hér í þessum sal að tryggja að þessi tvö frumvörp nái fram að ganga. Ég er annars vegar að tala um Carlsberg-ákvæðið, nokkuð sem var lofað hérna 2019 en hefur ekki komið til framkvæmda enn þá, lofað samhliða lífskjarasamningunum 2019 en hefur ekki orðið að veruleika, og hins vegar frumvarpið um tímabindingu uppbyggingarheimilda á grundvelli samþykkts deiliskipulags. Ég get lofað því að við í Samfylkingu munum gera allt sem við getum til að liðka fyrir því að þessi mál verði samþykkt og bjóðum fram okkar aðstoð við að tryggja vandaða byggð á þróunarreitum, liðka fyrir húsnæðisuppbyggingu og koma í veg fyrir að verktakar sitji á lóðum árum saman án þess að uppbygging fari af stað. Þetta er mjög mikilvægt til að þessi rammasamningur geti náð fram að ganga.

Það er og verður gríðarleg áskorun að tryggja aukið og stöðugt framboð íbúðarhúsnæðis og ef það tekst ekki þá er bara verið að blása upp nýja fasteignabólu með misvægi framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Það grefur auðvitað bara undan efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Það er eitthvað sem við megum ekki láta gerast. Þess vegna verðum við að tryggja að þessi rammasamningur og samningsmarkmiðin þar nái fram að ganga með öllum ráðum. Ég vildi óska þess að það væri fjármagn í þessari fjármálaáætlun fyrir þessum samningsmarkmiðum en fyrst svo er ekki þá kannski held ég að þessi frumvörp sem ég nefndi hérna séu þeim mun mikilvægari til að senda sveitarfélögum, uppbyggingaraðilum og aðilum vinnumarkaðarins skýr skilaboð um að ríkisvaldinu sé alvara og ætli að standa við sitt.

Fyrr í dag hlustaði ég á hæstv. forsætisráðherra fjalla um þessa fjármálaáætlun og hún sagði, með leyfi forseta:

„Við getum ekki bara horft á fjármálaáætlun stjórnvalda út frá sjónarmiði eingöngu um efnahagslegan stöðugleika. Við þurfum að horfa á heilbrigðiskerfið.“

Gott og vel, horfum á heilbrigðiskerfið. Uppbygging nýs Landspítala er komin á skrið. Það útheimtir auðvitað gríðarleg fjárfestingarútgjöld sem þverpólitísk samstaða er um, enda er þetta verkefni sem hefur verið stefnt að í áratugi. Það eru enn þá þó nokkur ár í að byggingarnar verði tilbúnar og komist í notkun. Í millitíðinni þurfum við að reka hérna heilbrigðisþjónustu. Það er ekkert hægt að frysta bara sjúklingana og skera þá svo upp þegar nýi Landspítalinn er tilbúinn. Það mun áfram þurfa að græða sár og lækna fólk í millitíðinni. Ef við skoðum fjárveitingarnar vegna reksturs heilbrigðisþjónustu í þessari fjármálaáætlun þá blasir bara við að þær hrökkva fyrir ósköp litlu öðru heldur en fyrirsjáanlegum launakostnaði þeirra sem nú þegar starfa í kerfinu. Ég held að það hljóti allir að sjá sem skoða útgjaldarammana í heilbrigðismálunum að þessar fjárveitingar hrökkva fyrir ósköp litlu öðru heldur en bara þessum fyrirsjáanlega launakostnaði, sem þýðir einfaldlega, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin er að boða óbreytt ástand í heilbrigðismálum út kjörtímabilið. Hún skilar auðu þegar kemur að því að stytta biðlista, laða fólk til starfa, létta á útskriftarvandanum, styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana úti um allt land. Hún skilar auðu í þessum risastóru knýjandi verkefnum í heilbrigðismálum. Þetta er eitthvað sem ég held að fjárlaganefnd þurfi að fara mjög rækilega yfir, þ.e. þessa útgjaldaramma heilbrigðismálanna.

Að því sögðu þá hlakka ég bara til frekari umfjöllunar um þessa fjármálaáætlun á vettvangi fjárlaganefndar og hvet stjórnarmeirihlutann til að nálgast bæði athugasemdir okkar í minni hluta og þær umsagnir sem berast með opnum hug.