Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun, fyrri umr. Hvernig tekst til með þessa áætlun hefur mikið að segja um væntingar og þróun og kannski bara þá menningu og áherslur sem við höfum í fjármálum og efnahagsstjórn hins opinbera. Það sem er kannski það jákvæða og hefur einkennt þessa umræðu er hvað hefur tekist vel hér undanfarin ár, þannig að þegar áföll eins og heimsfaraldur og stríð og fleira í framhaldinu hefur dunið á þá hefur okkur lánast að vera með sterkan efnahag svo að við höfum getað brugðist við. Við erum að sjá það í öllum áætlunum að vöxturinn hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Okkur tókst að verja efnahagskerfið í þessum áföllum og það var gríðarlega mikilvægt. Við náðum að tryggja kjör fólks og fyrirtækja eins og hægt var og náðum þannig, eins og það hefur verið orðað hér, að vaxa út úr vandanum sem skiptir gríðarlega miklu máli og er að sýna okkur að það eru fleiri og fleiri sem hafa það betra heldur en áður. Það er náttúrlega markmið okkar að hjálpa öllum og gera betra fyrir alla. Það er mjög jákvætt.

Það er líka ánægjulegt að sjá að aldrei hafa verið fleiri sem telja húsnæðiskostnað jafn litla byrði á heimilisbókhaldinu. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Á þessari leið þurfum við að halda áfram og það gerist ekki nema með ábyrgum ríkisfjármálum. Vissulega eru teikn á lofti núna út af hárri verðbólgu, það er sameiginlegt fyrir alla. En margar aðgerðir hér geta komið misjafnlega niður á mismunandi hópum. Þegar við gerum mikið af breytingum í efnahagsmálum þjóðarinnar þá kemur það niður á mismunandi hópum og kemur mismunandi hópum misvel en við getum öll verið sammála um að ábyrg og traust ríkisfjármál sem draga úr verðbólguvæntingunum gagnast öllum hópum. Þar verðum við að standa fast í fæturna. Ég tel að með þessari fjármálaáætlun hafi ríkisstjórninni tekist vel að senda viss skilaboð um að við ætlum að stunda hér áfram ábyrg ríkisfjármál. Fyrir mitt leyti getum við stigið stærri skref og það er örugglega eitt af því sem við munum ræða í meðförum þingsins á þessari fjármálaáætlun en hér eru stór og mikilvæg skref stigin. Við höfum séð að undanfarna daga og vikur hefur strax byrjað að draga úr verðbólguvæntingum sem er mjög jákvætt og mikilvægt fyrir alla. Því skiptir máli hvernig við höldum á þessu og förum inn í þessa áætlun.

Hér er talað um mikilvægi ábyrgra ríkisfjármála og þá eru nokkrir hlutir sem skipta máli og það er að tryggja og standa með þeim vexti sem er í hagkerfinu. Það er mikilvægt. Það er líka mikilvægt að passa útgjöldin, að þau aukist ekki og að sýna ábyrgð í því og senda skýr skilaboð þar. Okkur hefur tekist að bæta í á mörgum stöðum. Þar sem hefur verið aukning, og bara í öllum málaflokkum ríkisins, er mikilvægt að farið sé mjög vel með þá fjármuni sem veittir eru, að það sé verið að hámarka nýtinguna. Svo er annað sem við þurfum að ná að gera og það er að auka framleiðni í samfélaginu þannig að við séum að fá meiri framleiðni úr hverju starfi. Það skiptir máli. Þetta eru verkefni sem við þurfum að fara yfir í fjárlaganefndinni með hverju ráðuneyti. Þar held ég að skipti miklu máli að í hverju einasta ráðuneyti, og ég mun leggja áherslu á það, séu settir rammar, að það séu rammasett fjárlög eins og við höfum gert hér, að ráðherrarnir og ríkisstjórnin í heild og við hér sem löggjafarvald forgangsröðum fjármununum rétt. Það er mikilvægt að ef það koma upp ný og mikilvæg verkefni innan málaflokka sé farið yfir málaflokkinn í heild sinni áður en nýju fjármagni er veitt í nýtt verkefni og athugað: Eru einhver verkefni sem eru minna mikilvæg en það nýja sem er þá hægt að skipta út, hætta einu verkefni og byrja á öðru eða nýta peningana öðruvísi eða draga einhvers staðar úr til þess að bæta í annars staðar? Þetta er gríðarlega mikilvægt. Þannig eiga rammasett útgjöld að virka en ekki að búa til verkefni og það fær svo bara að lifa áfram og ekkert skoðað þegar þarf að bæta inn nýju. Við þurfum að forgangsraða. Það getur verið sársaukafullt en það er nefnilega ekki alltaf betra að bregðast við öllu þegar vantar meira fjármagn hér og þar, sem vissulega vantar á sumum stöðum, það getur verið svolítið eins og að pissa í skóinn sinn að bæta alltaf við fjármagni frekar en að skoða bara: Erum við að nýta fjármagnið rétt? Ef við eyðum um efni fram, sem við höfum kannski gert, útgjaldavöxturinn hefur verið kannski ívið of mikill, þá getur það ekki endað vel.

Þetta þurfum við líka að hafa í huga núna þegar tekjurnar eru að aukast. Það má alls ekki ráðstafa öllum auknum tekjum í aukin útgjöld, aukin verkefni, heldur þurfum við að ráðstafa þeim í að greiða niður skuldirnar hraðar. Það er mjög mikilvægt. Við þurfum að búa okkur undir næsta áfall. Við þekkjum það og sagan segir okkur að við munum þurfa að bregðast við, það kemur hér fjármálahrun, það kemur heimsfaraldur, það geisar stríð. Við vitum aldrei hvað getur gerst. Því er mikilvægt að vera viðbúin eins og við vorum þegar heimsfaraldurinn var. Því er jákvætt að við séum komin hér, eins og þessi fjármálaáætlun og þessar upplýsingar sem við höfum núna eru að segja okkur, að frumjöfnuðurinn sé orðinn jákvæður. En það er bara áfangasigur, það er ekki fullnaðarsigur. Við þurfum að ná heildarjöfnuði hérna þannig að við hættum að safna skuldum og förum að innleiða aftur skuldaregluna okkar sem við settum okkur fyrir faraldurinn. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum það fyrr. Það er gert ráð fyrir því 2028 en við eigum að nýta þessar auknu tekjur ríkissjóðs til að flýta því. Ég held að það myndi senda jákvæð skilaboð og það myndi gera okkur sterkari og öflugri til að takast á við það sem er.

Þá er mikilvægt að við leitum allra leiða til að hagræða í rekstri ríkisins. Hér er talað um hálft ráðningarbann, sem er jákvætt, að það sé alltaf íhugað hvort það þurfi að ráða í staðinn fyrir þá sem hætta og hvort það sé hægt að fara með þetta aðrar leiðir. Við höfum verið að stíga mörg jákvæð skref sem við þurfum á að halda áfram, eins og meðStafrænu Íslandi sem er að auka framleiðni gríðarlega, og vonandi förum við að sjá það í ríkisrekstrinum. Það eru svona verkefni sem borgar sig að setja fjármuni í að starta af því að það mun hagræða síðar og bæði létta líf fólks og auðvelda en líka draga úr kostnaði einstaklinga sem og ríkisins sem veitir þjónustuna. Það er því mjög mikilvægt verkefni. Stofnununum hefur verið að fækka. Nú eru mikil áform hjá umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra um sameiningu stofnana og að gera þær skilvirkari. Háskólaráðherra er að forgangsraða fjármunum betur. Dómsmálaráðherra er búinn að láta fara yfir starfsemi lögreglunnar, hvernig er hægt að nýta mannafla og fjármuni sem best þannig að við séum að sinna verkefnunum öflugar en að nýta þá fjármuni sem við höfum betur. Samhliða því er verið að styrkja lögregluna sem er mjög mikilvægt. Við erum að sjá árangurinn af því sem er búið að vera að setja í endurhæfingu og annað slíkt í kringum almannatryggingakerfið. Það er að skila sér í að vöxturinn þar er minni heldur en var gert ráð fyrir og endurhæfingin er að skila sér. Þar eru einmitt svona verkefni sem kosta.

Að lokum langar mig að segja að opinber fjárfesting er nú aðeins meira heldur en kemur fram hér af því að stórar fjárfestingar, eins og Isavia og annað, er sagt vera með atvinnugeirafjárfestingunni. Við þurfum að huga að því að þessar opinberu fjárfestingar fari um allt land í grunninnviði. Mörg svæði sem kannski eru köld og þar búa ekki margir eiga svo mikið inni í verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið, í að byggja undir hagvöxtinn, byggja undir þennan öfluga efnahagsbata sem ég er að tala um. Það þarf að byggja grunninnviðina og fjárfesta í því um allt land og það er líka minni hætta á að það sé verðbólguþrýstingur þar.