Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:04]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú fjármálaáætlun sem við höfum hér til umfjöllunar er víðtæk og boðar nýjar áherslur í takti við stöðu samfélagsins. Aðaláhersla áætlunarinnar er að sporna gegn verðbólgu, draga úr spennu í hagkerfinu, svokallað aðhald. Verðbólgan hefur risið töluvert síðustu mánuði og stýrivextir í kjölfarið. Það er óþarfi að endurtaka áhrif þessara hækkana á ríkissjóð og samfélagið allt. Það hefur verið margrætt á Alþingi og við erum öll meðvituð um stöðuna sem uppi er. Það er verkefni númer eitt, tvö og þrjú að vinna bug á verðbólgunni og koma á stöðugleika fyrir heimilin í landinu og við erum öll meðvituð um afleiðingarnar sem frekari verð- og vaxtahækkanir hafa á heimilin, þá sérstaklega á okkar viðkvæmustu hópa og fyrstu kaupendur. Aðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarna mánuði þrengja verulega að þeim hópi. Við þurfum að leggja áherslu á aðgerðir til að styðja við húsnæðismarkaðinn, framleiðnivöxt og fjölbreytni í hagkerfinu.

Þetta er ekki ákjósanleg staða og það vitum við. Þó er mikilvægt að við gleymum ekki öllu því jákvæða sem hefur gerst undanfarin ár. Margir keppast við að sækja athygli með því að birta svörtustu dómsdagsspárnar en staðreyndin er sú að þó að við séum ekki í ákjósanlegri stöðu verðum við að halda ljósunum lifandi og við sjáum bjarta tíma fram undan. Við unnum þrekvirki í baráttu okkar við Covid-heimsfaraldurinn og eftirköst hans. Það var Ísland sem var meðal fyrstu þjóða til að ná hjólunum aftur í gang eftir erfiðan tíma en þeirri baráttu er ekki lokið þótt henni fari vonandi að linna hvað úr hverju. Einnig hafa laun hækkað töluvert hér á landi og kaupmáttur aukist til muna, ásamt því hefur atvinnuleysi minnkað töluvert. Frumjöfnuður ríkissjóðs hefur reynst betri en gert var ráð fyrir og verður jákvæður. Hraður bati á frumjöfnuði ríkissjóðs og öflugur efnahagsbati hefur leitt til þess að skuldahlutfall ríkissjóðs og hins opinbera er lægra en áður var gert ráð fyrir.

Í fjármálaáætlun 2021–2025, sem lögð var fram haustið 2020, var gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera yrðu um 55% af landsframleiðslu í árslok 2022. Raunin er hins vegar sú að hlutfallið nam 40% af landsframleiðslu og verður að telja að skuldahlutfallið sé orðið nokkuð lágt í alþjóðlegum samanburði við þróuð ríki. Ríkisstjórnin ætlar sér að beita sér fyrir því að ná betri stöðu en við vorum í fyrir Covid en til þess þarf stefnan að tryggja tekjuöflun og aðhald, þ.e. að finna peningana á sanngjarnan máta og nýta þá skynsamlega. Fjármálaáætlun þessi er einmitt gerð með þau markmið að leiðarljósi.

Í núverandi stöðu er nauðsynlegt að gæta aðhalds og vissulega eru erfiðar ákvarðanir alltaf fylgifiskur þess. Þeir sem sitja við stjórnvölinn þurfa að stíga varlega til jarðar og meta mikilvægi hvers málaflokks fyrir sig í stóru myndinni. Í fjármálaáætluninni er aðhaldskrafa lögð á nær alla stjórnsýslu, mörg verkefni sæta frestun eða eru lögð tímabundið á ís. Þetta á þó alls ekki við um viðkvæmustu fasa hins opinbera, heilsu fólks og öryggi. Þá er sérstaklega horft til heilbrigðis- og velferðarkerfisins en við ætlum ekki að láta núverandi efnahagsástand hafa áhrif á eflingu heilbrigðiskerfisins, viðkvæma hópa og lífskjör. Við erum að vinna hörðum höndum að því að koma heilbrigðiskerfinu í réttan farveg og við stöldrum aldrei við. Það er mikilvægt að árétta að þrátt fyrir ýmsar raddir sem segja annað höfum við bætt verulega í heilbrigðiskerfið, tugum milljörðum inn í kerfi sem hefur nú þegar töluvert fjármagn til umráða. Efling heilbrigðis- og velferðarkerfisins er risastórt verkefni sem ríkisstjórnin ætlar ekki að fresta. Einnig er stefnt á að minnka kostnað og ná hagræðingu hvað varðar húsnæði, aðföng og mannauð og horft verður sérstaklega til frekari sameininga innan hins opinbera en það hefur gefið góða raun, t.d. með sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Samrekstur eða samnýting stofnana á aðstöðu kemur einnig til greina þegar sameining þeirra er ekki fýsilegur möguleiki.

Nóg hefur verið rætt um aðhaldskröfu fjármálaáætlunarinnar, hin hlið peningsins er svo að afla tekna. Þar hafa skynsamleg skref verið stigin með það að markmiði að tryggja sanngjarnt framlag hvers og eins til samfélagsins og þeirrar grunnþjónustu sem við nýtum öll. Helsta tekjuöflunarleið ríkisins er skattlagning. Hver og einn greiðir skatta af þeim tekjum sem hann aflar en skattlagning á fjármagnstekjur hefur sætt gagnrýni upp á síðkastið, þá sérstaklega hvað varðar skattprósentuna. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka skattprósentu á fjármagnstekjur en með þeirri hækkun aukum við tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða. Þetta er skynsamleg hækkun sem bítur ekki á neinn en skiptir miklu máli við öflun tekna fyrir mikilvæg samfélagsverkefni. Fjármagnstekjur skipta milljörðum en skattlagning þeirra er minni en á launatekjur. Margir hafa grætt á tá og fingri á tímum stríðs í Evrópu og heimsfaraldurs og mikilvægt er að þeir gefi sanngjarna upphæð til samfélagsins.

Það er ekki einungis heimilanna að koma okkur út úr tímum hárrar verðbólgu. Verkefnið krefst samvinnu allra, stjórnvalda, fyrirtækja, viðskiptabanka og samfélagsins alls. Einnig hefur ríkisstjórnin brugðist við þróun bifreiðaflota landsmanna. Með fjölgun raf- og tvinnbíla í umferðinni stuðlum við að minni losun kolefnis. Hins vegar fer gjaldtaka á hverja bifreið lækkandi með tilliti til kolefnisgjalds á bensín. Þessir bílar nota hins vegar sömu vegi, brýr og göng sem þarfnast reglulegs viðhalds og frekari uppbyggingar. Horft er til þess að lagfæra þann mismun sem myndast hefur og gæta jafnræðis í gjaldtöku vegna bifreiða. Það skiptir máli í þessu að við séum með aðhald en þó ekki á kostnað áframhaldandi uppbyggingar og fjárfestingar í fólkinu í landinu. Það má ekki draga úr öllum þeim góðu málum sem við höfum verið að vinna að á undanförnum árum og náð góðum árangri með. Það getur ekki orðið fórnarkostnaðurinn með aðhaldinu. Húsnæðismarkaðurinn, heilbrigt vaxtaumhverfi, heilbrigðiskerfið, farsæld barna og áframhaldandi framleiðsla á endurnýjanlegri orku er það sem við þurfum að halda áfram að fjárfesta í. Gleymum ekki hvert langtímamarkmiðið er og það er ekki að hætta framþróun samfélagsins hér á landi.

Virðulegur forseti. Stöndum vörð um samfélag okkar með ábyrgum og framsýnum hætti.