Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að einblína aðeins á lægst launaða fólkið í landinu, fólkið sem er fast á biluðum leigumarkaði og nær ekki endum saman, fólkið sem keypti sér húsnæði á lágvaxtatíma í góðri trú um að greiðslubyrði yrði innan skynsamlegra marka í framhaldinu en horfir nú fram á mikla óvissu um afkomu sína og barna sinna. Ríkisstjórnin hefur nefnilega fullkomlega brugðist þessu fólki ár eftir ár, mánuð eftir mánuð. Þessi ríkisstjórn keyrði upp húsnæðisverð með því að dæla peningum inn í eftirspurnarhlið húsnæðis en hefur haldið að sér höndum í uppbyggingu. Er þetta ekki stór ástæða fyrir þeirri verðbólgu sem við erum að horfa upp á í dag? Er þetta ekki stór ástæða fyrir hækkun á leiguverði líka? Svo eru hlutdeildarlánin, sem áttu að koma til móts við tekjulágt fólk og ungt fólk við kaup á fyrstu fasteign, með öllu óaðgengileg fyrir flesta vegna allt of strangra og óraunhæfra skilyrða. Ríkisstjórnin lofaði að koma á leigubremsu við undirritun lífskjarasamninga 2019, loforð sem ekki hefur verið efnt og stefnir ekkert í að vera efnt, enda virðist vera lítill áhugi á að gera neitt til að koma böndum á leigumarkaðinn.

Samkvæmt nýlegum þjóðarpúlsi Gallup hefur fjárhagsstaða heimila í landinu versnað hratt. Hlutfall þeirra sem safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman er núna 18% en í apríl 2022 var þetta hlutfall 10%. Fólk milli þrítugs og fimmtugs er ólíklegast til að geta safnað sparifé og líklegast til að safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman. Rúmur helmingur einstæðra foreldra á erfitt með að ná endum saman. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands átti fjórðungur heimila mjög erfitt eða nokkuð erfitt með að ná endum saman á árinu 2021. Það gerir um 38.000 heimili á landsvísu, forseti, 38.000 heimili. Þetta er fyrir þá gríðarlegu aukningu á verðbólgu sem við lifum við núna og aukningu á vaxtagjöldum þannig að hver er þá staðan í dag?

Ég get ekki séð að þessi fjármálaáætlun mæti vanda þessa fólks á neinn hátt. Ég get ekki séð að þessi fjármálaáætlun taki á verðbólgunni á neinn hátt. Ég get reyndar ekki séð að þessi fjármálaáætlun mæti neinum vanda sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag akkúrat núna. Ekki er verið að efla heilbrigðiskerfið sem mun á endanum þurfa að taka í auknum mæli við fólki sem brennur út, tapar andlegri og líkamlegri heilsu í því viðverandi streituástandi sem felst í því að búa við stanslausan afkomuótta.

Forseti. Frá upphafi aldar hefur hagnaður fyrirtækja aldrei verið meiri en á síðustu árum. Fordæmalaust góðæri hefur verið í verslun en á árunum 2018–2022 tvöfaldaðist hagnaður hennar á sama tíma og verðlag hækkaði um 20%. Þetta gefur sterklega til kynna að það sé verið að velta kostnaðarhækkun yfir á neytendur. Frá árinu 2009 og út árið 2021 högnuðust sjávarútvegsfyrirtæki landsins um 533 milljarða kr. samkvæmt tölum úr gagnagrunni Deloitte um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 143,2 milljarða kr. til eigenda sinna í arðgreiðslur. Svar forsætisráðherra við þessari þróun er að biðla til forystu atvinnulífsins um að gæta hófs í arðgreiðslum. Engar aðgerðir, ekkert til að koma í veg fyrir þessa þróun þar sem þeir sem eiga fullt eignast meira og þeir sem eiga minnst fá ekki að eignast neitt nokkurn tímann. Nei, bara forsætisráðherra að grátbiðja fjármagnseigendur að haga sér. Mér finnst þetta ágætis samlíking fyrir þessa fjármálaáætlun, forseti, og fyrir þessa ríkisstjórn. Innantómur orðaflaumur, aðgerðaleysi og algjör sýndarmennska.