Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hér undir lok þessarar umræðu þakka fyrir ágætisumræður og vil nú bara lýsa ánægju með það fyrirkomulag sem við höfum verið að þróa hér með samtal við fagráðherra og sérstaka kafla umræðunnar sem gefa færi á því að dýpka hana í samskiptum einstakra fagráðherra og þingsins. Ég myndi vilja segja að fjármálaáætlunin snúist umfram allt um þrennt. Í fyrsta lagi erum við að leggja áherslu á að ná niður verðbólgu, að styðja Seðlabankann í því verkefni, við leggjum áherslu á það. Í öðru lagi viljum við benda á þann mikla árangur sem við höfum náð undanfarin ár við að byggja upp lífskjörin í landinu. Við segjum núna að við verðum að leggjast á eitt við að verja þann árangur á meðan við náum niður verðbólgunni og væntingum um verðbólgu til framtíðar, verja þann mikla vöxt í lífskjörum og í kaupmætti sem við höfum náð í hús og byggja síðan áfram á þeim sterka grunni inn í framtíðina. Það er þriðja aðaláherslumál okkar.

Ég hef verið að fjalla um þetta í umræðunni frá því að ég steig hér síðast í ræðustól á öðrum vettvangi. Ég tel enn þá að stærstu tíðindin sem í áætluninni felast séu ótvírætt þau hve hratt og vel hefur tekist að bæta afkomuna, og þar með að lækka væntingar um skuldahlutföll ríkissjóðs sem skiptir gríðarlega miklu máli þrátt fyrir það sem ég heyrði hér sagt í síðustu ræðu. Þetta er að gerast langt umfram jafnvel bjartsýnustu sviðsmyndir sem við vorum að kynna fyrir nokkrum árum síðan. Þegar við lögðum fram fjármálaáætlun í miðjum Covid-storminum haustið 2021 gerðum við ráð fyrir að skuldir hins opinbera yrðu um 55% af landsframleiðslu í lok ársins 2022 en raunin er sú að hlutföllin voru um 40%. Við erum að tala um skuldir hins opinbera, ríki og sveitarfélög saman, og þær eru orðnar nokkuð lágar í alþjóðlegum samanburði. Skuldir ríkissjóðs standa núna í um 31% og fara lækkandi undir lok þessa tímabils sem við erum að ræða hér. Ég ætla bara aðeins að rifja það upp að í upphafi, þegar við komum með fyrsta frumvarpið að lögum um opinber fjármál, vorum við með hugmyndir um að setja okkur markmið til langs tíma um að vera með 45% skuldahlutfall en í dag erum við að mælast í um 31%. Þannig að skuldirnar eru á allt öðrum og miklu betri stað.

Ef við skoðum aðeins tekjur og gjöld þá er útlit fyrir að tekjur verði um 20 milljarðar umfram útgjöld í ár. Hér erum við að tala þá um frumjöfnuðinn. Þetta er mjög jákvætt. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem frumjöfnuður er jákvæður og sá áfangi næst þá ári fyrr en gildandi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Ég legg áherslu á að í þessari áætlun erum við að birta vaxtagjöldin niðurbrotið. Í umræðu um vaxtagjöld ríkissjóðs verð ég var við að það er algengt að þingmenn taki heildarvaxtagjöldin og leggi þau að jöfnu við það sem við þurfum að greiða í vexti á viðkomandi ári. En eftir þeim reikningsskilareglum sem við erum að starfa núna þá erum við með aukið gagnsæi með því að við tökum inn undir vaxtagjaldaliðinn þætti eins og reiknaða vexti á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar framtíðar sem munu falla á ríkissjóð yfir næstu áratugi. Þetta eru ekki peningar sem við þurfum að greiða á viðkomandi ári heldur erum við að reyna að auka gagnsæið og dýpka skilning á því nákvæmlega hver staða okkar er frá einum tíma til annars. Þetta hefur þess vegna ekki íþyngjandi áhrif á okkur á því fjárlagaári sem er undir, t.d. þurfum við ekki að taka lán til þess að greiða slíka vexti. Sama gildir um verðbæturnar sem við tökum inn og eru stór þáttur þegar koma verðbólguár. Við erum ekki að greiða allar verðbæturnar á viðkomandi ári. Ég er bara að vekja athygli á þessu í samhengi við fjármögnun, sem er eðlilegt að rætt sé um þegar við erum enn þá í heildarhalla. Við erum sem sagt komin í frumjöfnuð og þegar vaxtagjöldin eru þetta stór þáttur þá þarf að skilja hvernig þau eru samansett eins og ég er hér að rekja. Batinn í frumjöfnuði á þessu ári sýnist okkur nú þegar að geti orðið 70 milljarðar umfram gildandi fjárlög þessa árs. Það er gríðarlega jákvætt, sem sagt að við verðum komin í kannski 20 milljarða afgang en ekki 70 milljarða halla. Með þessum afkomubata, þ.e. þegar ríkissjóður lætur spennuna í hagkerfinu verða til þess að bæta afkomuna, erum við að hafa áhrif á eftirspurn í hagkerfinu, við erum að taka meira til okkar. Við erum ekki að standa okkur þegar við tökum afkomubatann, tekjuaukann, og ráðstöfum öllu aftur í útgjöld en þegar við bætum afkomuna jafn verulega og við sjáum í þessum tölum þá erum við einmitt að gera það sem við erum að tala um, að leggjast á árar með Seðlabankanum til að auka aðhaldið. Það felst í þessu aukið aðhald með því að afkoman batnar. Rétti mælikvarðinn til þess að skoða hvort ríkisfjármálin séu að verka með réttum hætti til þess að slá á verðbólguvæntingar er að skoða hver afkomubatinn er frá einum tíma til annars.

Það er auðvitað margt sem mann langar til að ræða hér í stóra samhenginu. Mér finnst eitt mjög stórt mál skipta máli í umræðu um fjárlagaáætlunina og það eru einfaldlega þessi miklu og stóru áform sem við erum í við uppbyggingu á Landspítalanum. Þetta eru alveg feikilega miklar fjárfestingar, mestu fjárfestingar sem við höfum ráðist í. Við erum í þessari áætlun að gera ráð fyrir um 25 milljörðum á hverju ári í Landspítalauppbygginguna. Við höfum aldrei farið í neitt viðlíka verkefni. Við skulum setja þetta í samhengi við önnur verkefni sem hafa verið til umræðu. Á morgun ætlum við að opna Hús íslenskra fræða, setjum þetta í samhengi við þá fjármuni sem fóru í það hús eða þjóðarhöll sem talað er um að gæti kostað 15 milljarða. Við ætlum að vera með um 25 milljarða í Landspítalann á hverju ári allt áætlunartímabilið. Þetta eru ofboðsleg uppbyggingaráform og þetta er gríðarlega mikil fjárfesting í heilbrigðiskerfinu á Íslandi, sú mesta sem við höfum nokkru sinni ráðist í, og sýnir að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu uppbyggingar í heilbrigðismálum. Á sama tíma og við höfum aukið fjármagn í reksturinn þá erum við í sögulegum fjárfestingum í uppbyggingu innviðanna.

Ég verð að nota hluta af þeim tíma sem ég hef hér til þess aðeins að ræða um íslensku krónuna og þessa umræðu sem ég heyri sífellt, sérstaklega frá þingmönnum Viðreisnar, um að það séu einhverjir þeir hérna í samfélaginu sem njóti þeirra lúxusréttinda að fá að gera upp í erlendri mynt. Þetta er mjög undarleg umræða, sérstaklega vegna þess að hér í þinginu náðist breið samstaða á sínum tíma, á árinu 2002, einmitt um að heimila þeim fyrirtækjum sem hafa meginþorra tekna sinna í erlendri mynt að gera upp í þeirri sömu mynt. Um þetta var breið umræða og nokkuð góð samstaða vegna þess að þetta væri eðlilegt, þetta myndi hjálpa viðkomandi fyrirtækjum sem væru sérstaklega í útflutningi að draga úr sveiflum í sínum rekstri. Það er ekki nema eðlilegt að fyrirtæki sem hafa meginþorra tekna sinna í erlendum myntum, vegna þess að þau starfa í alþjóðlegu umhverfi, hafi heimild íslenskra skattyfirvalda til þess að gera upp í þeirri sömu mynt. Ég verð að lýsa mikilli furðu þegar fólk kemur hér og segir að þetta séu einhver sérstök forréttindi, í ljósi þess hversu breið samstaða var um þetta hér í þinginu á sínum tíma. Og að menn skuli síðan koma fram í kjölfarið með þá kröfu að allir aðrir eigi að fá að njóta sömu réttinda, við þessu er í raun og veru ekkert annað svar heldur en að það njóta allir þessara sömu réttinda, allir þeir sem hafa sömu aðstæður, þ.e. hafa meginþorra tekna sinna í erlendri mynt, þeir geta fengið að gera upp í erlendri mynt. Við erum hér auðvitað að horfa á atvinnustarfsemina í landinu. Að segja það hins vegar einhverja mismunun gagnvart þeim sem ekki eru með meginþorra tekna sinna í erlendri mynt, hvað þá að tala um að einstaklingar ættu að hafa rétt til þess að skila skattframtali sínu í evrum, ég meina, hvert eru menn eiginlega komnir í þessari umræðu? Algerlega út í skurð að mínu áliti, algerlega út í skurð. Það væri svo sem hægt að verja miklum og löngum tíma í umræður um þetta og tengsl þessa við sjálfstæða peningamálastefnu og allt slíkt. Ég bara get ekki setið á mér að gera athugasemdir við þetta.

Ég hef auðvitað engar aðstæður hér til að fara yfir öll þau framfaramál sem er að finna í þessari áætlun. Ég bara bendi á að það hefur orðið jákvæð þróun á vaxtamörkuðum sem eru þá væntingar til lengri tíma frá því að áætlunin var lögð fram. Kjör ríkissjóðs hafa batnað, sem er enn ein vísbendingin um að við erum smám saman að ná tökum á stöðunni. Við munum halda áfram að vinna að hinum ýmsu aðhalds- og hagræðingarverkefnum sem eru boðuð í þessari stefnu og það verður verkefni í öllum ráðuneytum og samstaða um það í ríkisstjórninni. Ég býð síðan að sjálfsögðu fram alla aðstoð og samstarf ráðuneytisins við fjárlaganefnd við frekari úrvinnslu á málinu.