Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

lax- og silungsveiði.

957. mál
[21:56]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugavert mál sem hér er til umræðu og ekki síst fyrir líffræðinga. Það sem mér finnst áhugavert er að fá að vita nánar um markmiðið með þessum tilraunum sem á að fara í og þessum fyrirdrætti. Sér hæstv. ráðherra þennan nýbúa í íslenskri náttúru sem sérstaka ógn sem þurfi að eyða? Er það það sem rekur hana áfram? Nú er þessi nýbúi kannski ekki alveg á sömu slóðum að hrygna eða að nýta sömu vist og náttúrulegi laxinn eða sá upprunalegi, nýbúinn er á heldur lygnari svæðum, skilst mér, og síðan ganga seiðin nokkuð hratt til sjávar. Ég sé ekki alveg að hann sé bein ógn. En það er ýmislegt sem hæstv. ráðherra sér sem ég sé kannski ekki og það væri fróðlegt að vita hvort ráðherra væri, í ljósi fjölbreytileikans, jafnvel tilbúin að bjóða þennan nýbúa velkominn.