Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

lax- og silungsveiði.

957. mál
[22:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég er bara með eina einfalda og stutta spurningu til ráðherra. Þarna er verið að setja í lögin sérstakt ákvæði um hnúðlaxinn, en nú eru aðrir utanaðkomandi laxar líka farnir að fara upp árnar, t.d. eldislax. Væri ekki nær lagi að vera ekki að nefna einstaka tegund af löxum í lögunum og gera það frekar að reglugerð að ráðherra geti bætt við fleiri tegundum ef þær fara að koma í árnar?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að þegar atvinnuveganefnd fór í heimsókn til Noregs og ræddi þar við sérfræðinga í þessum málum þá voru þeir t.d. með mjög öflugt verkfæri til að takast á við eldislaxa sem eru að koma í veiðiárnar hjá þeim og spurning hvort ekki sé hægt að setja reglurnar einu sinni og gefa ráðherra síðan það vald að breyta því hvaða tegundir eiga undir; þá þarf ekki að fara með næstu tegund í gegnum þingið aftur og aftur á næstu árum.