Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:24]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1524, sem er mál 976. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Frumvarp þetta er samið í matvælaráðuneytinu. Með frumvarpinu er mælt fyrir um hlutdeildarsetningu grásleppu en fram til þessa hefur veiðum verið stjórnað með sóknarstýringu, þ.e. takmörkuðum fjölda leyfa og takmörkuðum fjölda veiðidaga. Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg. Þannig beindi meiri hluti atvinnuveganefndar því til mín síðasta vor að kanna leiðir til þess að gera þessa veiðistjórn markvissari. Þá var í nefndarálitinu áréttað að horfa þyrfti til svæða og leiða til þess að draga jafnframt úr hættunni á samþjöppun. Megintilgangur frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar er því að tryggja enn frekar sjálfbæra nýtingu grásleppu og auka fyrirsjáanleika fyrir þá aðila sem stunda grásleppuveiðar, m.a. með tilliti til veðurs og starfsaðstæðna grásleppusjómanna.

Markmið frumvarpsins er einnig að tryggja betri stýringu veiðanna til að koma í veg fyrir óæskilegan meðafla þar sem hægt sé að bregðast við meðafla án þess að takmarkaður fjöldi daga skapi hvata gegn því. Nú er það svo að þegar leyfi er virkjað á skip hefst talning daga óháð veðri, sem getur ýtt undir að dagar nýtist ekki vegna slæmra veðra eða að dagar séu nýttir þrátt fyrir að óæskilegur meðafli sé mikill. Annað dæmi sem má nefna einnig er að ef aðili lendir í bilun á búnaði daginn eftir að hann leggur net, sem veldur því að viðkomandi getur ekki veitt, getur hann ekki nýtt sér alla þá daga sem hann hefur til veiða. Slík staða kæmi aftur á móti ekki upp ef frumvarp þetta yrði að lögum því að veiðarnar væru þá ekki háðar takmörkuðum fjölda daga.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem lagt er til að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu. Afmörkun veiðisvæðanna í frumvarpinu er óbreytt frá því sem verið hefur samkvæmt núgildandi reglugerð um hrognkelsaveiðar en um er að ræða sjö svæði, þ.e. Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Húnaflóa, Norðurland, Austurland og Suðurland. Í frumvarpinu er mælt fyrir um lögfestingu veiðisvæðanna þar sem í frumvarpinu er einnig lagt til að aflahlutdeild skips og aflamark sé bundið viðkomandi veiðisvæði.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Í nýrri 7. gr. a laganna er mælt fyrir um að ráðherra verði heimilt að úthluta aflamarki til fiskiskipa til veiða á grásleppu á grundvelli aflahlutdeildar skips á hverju staðbundnu veiðisvæði. Þannig geti aðeins skip sem hafi aflahlutdeild og aflamark og skráð er innan veiðisvæðis veitt þar grásleppu en einnig skal landa grásleppu innan veiðisvæðisins. Þá er mælt fyrir um að ef skip eru flutt á milli veiðisvæða falli aflahlutdeild skipsins í grásleppu niður enda gerir frumvarpið ráð fyrir að framsal aflahlutdeilda geti aðeins verið innan viðkomandi veiðisvæðis en ekki á milli veiðisvæða.

Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að tekið verði upp nýliðunaraflamark. Lagt er til í 4. gr. frumvarpsins að 5,3% verði dregin frá heildarafla grásleppu og ráðherra verði heimilt að úthluta gjaldfrjálst til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti aflamarki til að hefja grásleppuveiðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar kveðið á um úthlutun aflamarks til nýliða, skilyrði þess að vera nýliðar, skilyrði fyrir úthlutun hámarksafla og ráðstöfun þess aflamarks sem ekki tekst að úthluta til nýliða innan hvers fiskveiðiárs. Þá er mælt fyrir um að Fiskistofu sé heimilt að taka gjald vegna úthlutunar til nýliða en einnig munu nýliðar þurfa að greiða veiðigjald af grásleppu samkvæmt lögum um veiðigjald verði frumvarpið að lögum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að framsal á aflahlutdeild og aflamarki verði takmarkað innan staðbundinna veiðisvæða og þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af einstökum svæðum. Samþjöppun veiðiheimilda getur eftir sem áður orðið innan veiðisvæðanna en þó aldrei í hærra hlutfalli en 2% af heildaraflahlutdeild í grásleppu. Það mun takmarka mjög þau áhrif. Annars tel ég að þetta sé atriði sem nefndin þurfi sannarlega að skoða sérstaklega.

Þrátt fyrir það sem hér kemur fram í framsögunni og jafnframt í greinargerð með frumvarpinu um takmarkanir á framsali og flutningi aflaheimilda er í frumvarpinu jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um flutning á aflamarki á milli veiðisvæða á yfirstandandi veiðitímabili ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega innan veiðisvæðis, svo sem ef þar verður aflabrestur, en slíkt skilyrði yrði þá ítarlega skilgreint í lögum.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um, í ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða, að fyrir 1. mars 2024 verði fiskiskipum úthlutað aflahlutdeild í grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip og hefur verið nýtt innan viðmiðunartímabilsins. Lagt er til að vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða og viðmiðunartímabilið verði lengra en þrjú síðustu veiðitímabil. Grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og aflabrögð geta verið misjöfn milli ára. Þá geta fráfarir vegna veðurs eða veikinda haft veruleg áhrif. Er því í frumvarpinu lagt til að miða við lengra tímabil, þ.e. þrjú bestu veiðitímabilin frá og með árinu 2014 og til og með árinu 2022.

Vertíð grásleppuveiða í ár er þegar hafin. Því er gert ráð fyrir að gildistaka frumvarpsins, verði það að lögum, verði 1. september 2023 og þannig verði nægt svigrúm til að undirbúa breytingarnar sem frumvarpið mælir fyrir um með góðum fyrirvara fyrir vertíðina vorið 2024.

Ég vil benda hv. þingmönnum á að öðru leyti ágæta greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar sem lýtur að bæði tilefninu og nauðsyn lagasetningar sem hér hefur þegar verið farið yfir í framsöguræðu og þá ekki síst þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá því sem áður hefur verið fjallað um í hlutdeildarsetningu grásleppu í frumvörpum þeim sem hafa komið hér til umfjöllunar í þinginu áður, þar sem við samningu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar hefur verið brugðist við þeim áhyggjum, að mínu mati, sem upp hafa komið í slíkri umræðu að því er varðar hámarksaflahlutdeild, framsal og flutning aflaheimilda, nýliðun og staðbundin veiðisvæði.

Í 4. kafla greinargerðarinnar er sérstaklega fjallað um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Sá kafli er óvenjuítarlegur og gerð þar góð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem varða stjórnskipuleg álitamál en einnig er í greinargerðinni fjallað sérstaklega um athugasemdir og viðbrögð við þeim, mat á áhrifum frumvarpsins, verði það að lögum, og önnur slík sjónarmið eins og gengur og gerist um framlagningu frumvarpa hér á Alþingi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar og treysti því að geta átt gott samstarf við hv. þingnefnd um vinnslu málsins.