Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skal engan undra að svona mál sé umdeilt. Í hugum margra er þetta það stórt mál, þegar verið er að einkavæða sameiginlegar auðlindir, að það nístir í hjarta fólks. Fyrir mér er þetta bara álíka og við værum að ræða hér inngöngu í Evrópusambandið. Og vegna hvers? Vegna þess að við erum búin að ganga í gegnum afleiðingar af kvótasetningu og ég sem Vestfirðingur hef horft upp á byggðirnar hrörna í kjölfar kvótasetningar og framsals. Þess vegna taldi ég að við værum komin á þann stað að við myndum telja að sá hluti sem er eftir ókvótasettur með framsali, að við gætum nýtt hann til að styðja við frelsi í atvinnugreininni innan ákveðinna marka.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill vel í málum varðandi byggðir landsins og möguleika manna á að sækja sjó: Á hvaða félagslegum og umhverfislegum rannsóknum byggir hæstv. ráðherra þessa kvótasetningu á hrognkelsum sem styður við hugtakið sjálfbærni, sem kom fram í greinargerðinni og stendur auðvitað fyrir umhverfislega þætti og efnahagslega og líka samfélagslega þætti? Hefur það eitthvað verið rannsakað hvaða hugsanlegar afleiðingar sú samþjöppun sem mun fara af stað mun hafa? Við þekkjum bara hvernig það hefur verið, bæði í krókaaflamarkskerfinu og aflamarkskerfinu, hvaða byggðaáhrif verða í kjölfarið. Þegar við gerðum þessar breytingar á strandveiðum á síðasta kjörtímabili tók það þrjú ár með alls kyns rannsóknum og tilraunum og með Byggðastofnun með í ráðum. Mig langar að vita hvaða rannsóknir hafa nú farið fram.