Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:03]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er auðvitað ekki létt, gæti ég trúað, fyrir hv. þingmann að koma hingað upp og vera svo berorð og gagnrýnin á hæstv. matvælaráðherra en það er sannarlega tilefni til þess. Hún kom hérna fram af hugrekki og hreinskilni og þetta hefur örugglega ekki verið létt verk en nauðsyn krafðist þess því að með þessu frumvarpi er þingflokkur Vinstri grænna að stuðla að einkavæðingu atvinnuréttarins vítt og breitt um landið og það er auðvitað grafalvarlegt og það er rétt að spyrja hvers vegna svo sé. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hún að hafi gerst? Telur hún að þessi samvera með Sjálfstæðisflokknum hafi orðið til þess að flokkurinn sé farinn að færast svona örugglega og hratt í það að einkavæða allt hvað eina eða hvað hefur gerst hjá Vinstri grænum? Svo er annað sem ég sé hér, þegar maður horfir yfir hóp hv. þingmanna Vinstri grænna, að það virðist vera eins og það sé einhver meðvirkni í gangi, að menn séu bara komnir í það að verja hvað sem er ef ráðherrann leggur það á borð og jafnvel einkavæðingu á auðlindum þjóðarinnar. Þess vegna væri áhugavert að fá örfá orð um það hvað gæti mögulega verið hér á ferðinni. En það er mjög undarlegt að fylgjast með þessu sem er í gangi.