Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

óviðunandi íbúðarhúsnæði.

[15:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég sá þennan þátt í gær og umfjöllunin veitti innsýn í aðbúnað og húsnæði fólks sem er algerlega óviðunandi í okkar samfélagi. Ég get verið sammála hv. þingmanni um það. Einnig veitti þessi umfjöllun okkur innsýn í það hversu langt er gengið í að gera eymd fólks og húsnæðisvanda að féþúfu. Það er satt að segja hryllilegt að hugsa til þess hvað fólk leyfir sér í þeim efnum. Það eru sár vonbrigði og samfélaginu öllu alvarleg áminning. Ábyrgð stjórnvalda, ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, felst í því að tryggja viðunandi og sanngjarna löggjöf á þessu sviði, til að mynda húsaleigulög, brunavarnalög, lög um lögheimili og aðsetur, að skipuleggja virkt eftirlit o.s.frv.

Eftir brunann á Bræðraborgarstíg var sett af stað mikilvæg vinna, bæði á vegum stofnana og nú síðast á vegum tveggja starfshópa sem ég skipaði fyrir rúmu ári sem skiluðu skýrslu með 13 úrbótatillögum. Þessar 13 úrbótatillögur eru þannig að fimm þeirra er lokið og sjö af þeim eru síðan þessum tveimur starfshópum og eru að hluta til til umsagnar í samráðsgátt með það að markmiði að undirbúa löggjöf sem styrkir annars vegar takmarkanir á fjöldaskráningu lögheimilis og aðseturs og hins vegar lagabreytingar vegna óleyfilegrar búsetu. Þær þurfa annars vegar að vera á því sviði að heimila tímabundna skráningu aðseturs í atvinnuhúsnæði þannig að það sé tekið út og haft eftirlit með því, sem ekki er í dag, og hins vegar varðandi brunavarnalög til að veita slökkviliðinu heimildir til að skoða slíkt húsnæði.