Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

misnotkun á lyfjagátt.

[15:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það bárust fréttir af því síðastliðna helgi og síðan fleiri í kjölfarið, fyrst í Morgunblaðinu og síðan m.a. í viðtali við forstjóra Persónuverndar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær, að verið væri að skoða misnotkun á lyfjagátt með uppflettingum sem virðast vera gerðar í öðrum tilgangi en að höndla með lyf. Ef einhverjar upplýsingar eru taldar þeirrar gerðar að þær ættu að vera í sem mestu vari þá hljóta það að vera heilbrigðisupplýsingar og upplýsingar um lyfjaávísanir til fólks. Þarna virðist vera einhver misbrestur á.

Mig langar í þessu samhengi til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ráðherra þyki eðlilegt að Persónuvernd, þótt sú stofnun heyri ekki beint undir ráðherra, landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafi vitað jafn lengi og raunin virðist vera af gallanum án þess að aðhafast. Ef viðlíka galli kæmi upp í kerfum sem einkaaðilar héldu utan um er hætt við að eftirlitskerfið hefði hrokkið af hjörunum.

Sömuleiðis langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort heilbrigðisráðuneytinu hafi verið kunnugt um vitneskju landlæknisembættisins, Lyfjastofnunar og Persónuverndar um þetta mál allar götur frá því að það kom upp um mitt síðasta ár, að því er virðist, og hefur ráðuneytið haft af því einhver afskipti hingað til?