Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

gögn um tollskráningu.

[15:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Fólk og fyrirtæki eiga rétt á því að íslenska ríkið komi hreint fram í samskiptum við borgarana. Það á ekki síst við í dómsal þar sem rúmlega 200 millj. kr. hagsmunir eru undir fyrir fyrirtæki í þessu landi sem heitir Danól. Aðili í þeirri stöðu á skýlausan rétt á aðgangi að gögnum málsins. Hann á líka rétt á því að lykilgögn frá alþjóðastofnunum sem staðfesta málstað fyrirtækisins og ganga þvert á ranga ákvörðun ríkisins séu lögð fram fyrir dómi þegar fyrirtækið leitar réttar síns. Um þetta var rætt á sláandi fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun og þetta var líka í fréttum í gærkvöldi og á vefmiðlum í dag. Samkvæmt gögnum málsins beitti fjármálaráðuneytið Skattinn þrýstingi til að láta Danól greiða toll af pitsaosti í jurtaolíu sem á ekki að greiða toll af. Þetta er gert eftir að Mjólkursamsalan og Bændasamtökin krefjast þess. Þessi ákvörðun og þrýstingur ráðuneytisins sem starfsmenn Skattsins sögðu fyrir dómi að væri lögbrot af hálfu ráðuneytisins er byggð á óformlegum tölvupósti frá starfsmanni ESB. Það sem ekki kom fram er að þessi sami starfsmaður ESB sendi annan tölvupóst nokkrum dögum síðar þar sem hann breytti fyrri afstöðu sinni sem ríkið byggði þó allt sitt á vegna þess að hann fékk ekki réttar upplýsingar. Sá tölvupóstur hvarf og var aldrei lagður fram eða sendur fyrirtækinu sem í hlut á þótt það eigi að sjálfsögðu skýran rétt á því. Málið fór fyrir dóm og það liggur fyrir að ríkislögmaður og fjármálaráðuneytið lögðu ekki fyrir dóminn þetta lykilgagn og heldur ekki svör frá ESB og Alþjóðatollastofnuninni þar sem sú skýra niðurstaða lá fyrir að ríkið sé að tollflokka vöruna ranglega en fyrirtækið rétt. Þessi bréf bárust ráðuneytinu og ríkislögmanni frá Skattinum í nóvember 2021 en voru ekki lögð fram í Landsrétti fáeinum vikum síðar.

Mín spurning er einföld og ég veit að ráðherra þekkir málið vel: Hvers vegna hvarf seinni tölvupósturinn frá ESB sem breytti fyrri afstöðu sem ríkið hafði byggt allt sitt á? Og af hverju voru ekki lögð fyrir dóm svörin frá ESB og Alþjóðatollastofnuninni sem sögðu skýrt að íslenska ríkið væri að flokka vöruna ranglega og ganga á svig við lög og alþjóðlegar skuldbindingar?