Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

gögn um tollskráningu.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um málarekstur af þessum toga sem fer fram fyrir dómstólum: Það er ríkislögmaður sem gætir hagsmuna ríkisins og íslenskir dómstólar dæma eftir íslenskum lögum. Þeir dæma eftir þeim lögum og reglum sem við höfum sett á grunni fullveldis okkar um þessi efni. Það stenst ekki að framkvæmd stjórnvalda við tollaákvarðanir sé augljóslega á skjön við alþjóðlegar skuldbindingar og við verðum að hafa það í huga að við Íslendingar höfum forræði yfir þessum málum rétt eins og önnur ríki. Ríki utan Evrópusambandsins, eins og Noregur og Liechtenstein, fara hvert fyrir sig dálítið ólíkar leiðir og það er hvergi þannig að formleg afstaða Evrópusambandsins sé ráðandi atriði um niðurstöðu yfirvalda á hverjum stað. Þannig myndi ég segja að það væri býsna langsótt að halda því fram að dómari á Íslandi, sem ætlar að dæma eftir íslenskum lögum sem um efnið gilda, hefði látið það ráða afstöðu sinni hvað segði í tölvupósti frá embættismanni Evrópusambandsins. Ég held að það sé býsna langsótt afstaða.

Það er ekki þannig í daglegum störfum mínum að ég sé að hafa afskipti af því hvaða gögn eru lögð fram í einstaka málum og þannig var það að sjálfsögðu ekki í þessu máli. En það hafa hins vegar verið reistar spurningar og það er mín skoðun að ríkið eigi að veita fullt gagnsæi um forsendur fyrir ákvarðanatöku. Nú er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að lýsa áhuga á því að skoða þetta mál og við munum veita allar upplýsingar sem við getum og ég veit að Skatturinn mun sömuleiðis gera það.