Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

gögn um tollskráningu.

[15:35]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Forseti. Þetta eru óneitanlega áhugaverð svör hjá fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á þessu máli. Nú voru starfsmenn Skattsins fyrir dómi, fyrir héraðsdómi, að bera vitni. Og hvað sögðu starfsmenn Skattsins þar? Þeir töluðu bara nákvæmlega og skýrt um það að fjármálaráðuneytið væri að fara fram með röngum hætti. Þeir sögðu sig frá málinu vegna þess að fjármálaráðuneytið var að þrýsta á um ranga niðurstöðu sem fyrirtæki og hagsmunaaðilar úti í bæ höfðu hvatt ráðuneytið til þess að leggja fyrir. Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra um það sem starfsmenn Skattsins sögðu þarna fyrir dómi? Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra um það, hver er skoðun hans á því, að álit frá ESB — við erum bundin alþjóðlegum skuldbindingum og þarna var gengið of langt í tollflokkuninni í ranga átt — var ekki lagt fram fyrir dóminn þótt það hefði klárlega getað haft áhrif á niðurstöðuna og heldur ekki álit Alþjóðatollastofnunarinnar um nákvæmlega sama efni? Er það skoðun ráðherra að starfsmenn Skattsins hafi farið með rangt mál fyrir dómi þegar þeir sögðu að fjármálaráðuneytið væri að þrýsta á um ólög, svo ég vitni nú í þá og noti rétta orðið? (Forseti hringir.) Er það mat fjármálaráðherra að þessi tvö erindi frá Alþjóðatollastofnuninni og Evrópusambandinu hefðu í alvöru ekki haft nein áhrif á málareksturinn sem fyrirtækið stendur í? Og á ekki að gæta hagsmuna þessa fyrirtækis nú í framhaldinu?