Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, o.fl. (eftirlitsheimildir, endurgreiðsla og séreignarsparnaður). Frumvarpið er á þskj. 1488 og er 952. mál þingsins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Áform um þessa lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 6.–13. mars á þessu ári og drög að frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgáttinni dagana 15. til og með 22. mars. Að auki var við vinnslu frumvarpsins haft samráð við ríkisskattstjóra, dómsmálaráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og héraðssaksóknara.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Annars vegar er lagt til að ríkisskattstjóra verði veitt aukin úrræði til að bæta skil og eftirlit með þeim sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá. Hins vegar er lagt til að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis verði lækkað.

Um fyrra atriðið, um aukin úrræði, vil ég segja að hér er lagt til að ríkisskattstjóra verði veittar frekari heimildir til að synja aðila um skráningu að nýju á virðisaukaskattsskrá. Nánar tiltekið á þetta við í þeim tilvikum þegar um er að ræða vanskil á virðisaukaskatti, virðisaukaskattsskýrslum eða ef um er að ræða vanskil á opinberum gjöldum. Einnig er lagt til í frumvarpinu að ríkisskattstjóra verði veittar frekari heimildir til að úrskurða aðila í ákveðnum tilvikum af virðisaukaskattsskrá, þ.e. í þeim tilvikum þegar um er að ræða vanskil á virðisaukaskatti, virðisaukaskattsskýrslum, skattframtölum og opinberum gjöldum. Einnig er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilt að úrskurða aðila af virðisaukaskattsskrá í þeim tilvikum þegar aðili verður ekki við ítrekaðri beiðni ríkisskattstjóra um gögn og upplýsingar um skattskyldan rekstur sinn. Lagt er til að hinar auknu heimildir taki þegar gildi. Talin er nauðsyn á að ríkisskattstjóri fái aukin úrræði til að bregðast við vanskilum á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti þar sem núverandi úrræði ríkisskattstjóra hafa ekki reynst nægjanleg. Þær breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu eiga að stuðla að skilvirkara skatteftirliti og koma í veg fyrir að aðilar sæti ítrekað áætlunum eða skili ekki innheimtum virðisaukaskatti í ríkissjóð. Í frumvarpinu kemur skýrt fram að ríkisskattstjóri þurfi að gæta jafnræðis og meðalhófs við ákvarðanatöku þar sem í úrræðunum felast auknar kröfur á skráningarskylda aðila. Verður þeim eðli máls samkvæmt aðeins beitt þegar nauðsyn krefur og þegar önnur úrræði ná ekki því markmiði sem að er stefnt.

Varðandi síðari hlutann, sem er endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskattsins, þá er hér um að ræða endurgreiðsluhlutfall vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Lagt er til í frumvarpinu að hlutfallið verði lækkað úr 60% í 35% frá og með 1. júlí næstkomandi, þ.e. á miðju árinu 2023. Markmið tillögunnar er helst að sporna við verðbólguþrýstingi og draga með því úr þenslu. Þessi aðgerð er einn liður í markmiðum stjórnvalda til að bæta enn frekar afkomu ríkissjóðs og ná niður verðbólguvæntingum til lengri tíma. Tillögunni er ætlað að styðja við eitt af meginmarkmiðum Seðlabankans, að stuðla að stöðugu verðlagi og því að árleg verðbólga verði innan vikmarka og sem næst 2,5%.

Það má gera ráð fyrir því að með lækkun endurgreiðsluhlutfallsins muni byggingarkostnaður hækka nokkuð. Við metum þá hækkun byggingarkostnaðar u.þ.b. 2% en það byggist á því að vinnuliður við nýbyggingar, samkvæmt grunni byggingarvísitölunnar, er um þriðjungur. Við sjáum á sama tíma af opinberum gögnum að markaðsvirði nýbygginga hefur nokkuð hressilega sagt skilið við byggingarkostnaðinn og það er nokkuð langt síðan við sáum jafn mikið gap á milli markaðsvirðis nýbygginga og byggingarkostnaðar, þ.e. að arðsemin af nýbyggingum virðist hafa verið töluvert mikil og sérstaklega hin síðari misseri. Af þessari ástæðu og að því gefnu að betra jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar þá er ekki ástæða til að ætla að þessi aukni byggingarkostnaður rati allur út í markaðsverðið. Það liggur fyrir, þrátt fyrir nokkra lækkun húsnæðisverðs og þrátt fyrir hækkandi fjármagnskostnað og nokkuð aukinn kostnað vegna aðfanga, bæði vegna alþjóðlegra kostnaðarhækkana og talsverðra launahækkana í nýgerðum kjarasamningum, að það eru nokkrar breytingar á þessum markaði. Þó eru enn mikil umsvif á byggingarmarkaði. Sem dæmi má nefna að samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafa aldrei verið fleiri íbúðir í byggingu en um síðustu áramót og í mars var enn verulegur fjöldi íbúða í byggingu. Endurspeglast sú staðreynd m.a. í stórauknum útlánum til byggingarfyrirtækja í ársbyrjun sem gefur jafnframt vísbendingu um framhald þess mikla fjárfestingarvaxtar sem varð á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, 2022, þegar hlutdeild fjárfestingar í landsframleiðslu var hærri en hafði verið frá árinu 2008; sem sagt gríðarlega mikil umsvif á þessum markaði um þessar mundir.

Samandregið má segja að hér sé slegið á þenslu strax á þessu ári enda er það eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir. Ég tel ekki tímabært að tjá mig mikið um það hvort þessi ákvörðun eigi að koma til endurskoðunar síðar. Það verður að meta af aðstæðum. Það er alveg ljóst að þetta hefur á tímum verið mikilvægt tól fyrir stjórnvöld til að beita. Við höfum t.d. á köflum, vegna slaka í nýframkvæmdum, hækkað endurgreiðsluhlutfallið upp í 100%. Þetta gerðum við t.d. hér meðan á heimsfaraldrinum stóð. Þegar margir voru að tapa störfum og afkomu heimilanna var ógnað þá beittum við því sem örvandi aðgerð. Við létum hana síðan renna sitt skeið. Það er hægt að segja um 60% endurgreiðsluna að hún hefur varað mjög lengi. Hún er nánast orðin eins og hluti af umhverfi byggingargeirans á Íslandi þannig að þetta er töluvert mikil breyting sem við erum að mæla fyrir hér og mér finnst ekki óeðlilegt að margir muni líta þannig á að þegar fram í sækir munum við vilja aftur falla í þetta hefðbundna far með 60% endurgreiðsluna. En eins og ég segi, það er eitthvað sem við þyrftum að meta af markaðsaðstæðum. Aðallega myndi ég telja að það ætti að ráðast af framboði nýbygginga eins og það mun þróast milli ára í framtíðinni.

Ég ætla næst að víkja að breytingum á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt. Að því er varðar þessar breytingar, sérstaklega fyrst á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þá er lagt til að heimildir til skattfrjálsrar ráðstöfunar og úttektar viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar í tengslum við öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði framlengdar. Þær myndu að óbreyttu falla úr gildi 30. júní á þessu ári en við leggjum hér til að þær verði framlengdar um eitt og hálft ár eða til og með 31. desember 2024. Með þessu er þá framlengt úrræði sem hefur nýst tugum þúsunda íslenskra heimila til að draga úr skuldum og bæta eignastöðu sína. Þessi áform endurspeglast sömuleiðis í yfirlýsingu stjórnvalda frá 12. desember sl. sem sett var fram í kjölfar nýafstaðinna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Ég ætla nú ekki að fara í langt mál um þetta úrræði en það má segja að með þessu sé tryggt ákveðið samræmi við hið varanlega úrræði sem er komið í lögin fyrir fyrstu íbúðarkaup. Við höfum þá fest í lög úrræði fyrir fyrstu íbúðarkaupendur til að taka út allt að tíu ára uppsafnaðan séreignarsparnað skattfrjálst til að byggja upp eigið fé. Þetta er hluti af þeirri séreignarstefnu sem við höfum rekið hér. Með því að við framlengjum núna þennan þátt málsins sem tekur til allra jafnt og ekki bara til fyrstu íbúðarkaupenda þá erum við að tryggja að það úrræði gildi sömuleiðis í tíu ár. Síðan, eins og við vitum, hefur þingið nýlega afgreitt tillögu um að tilgreinda séreignin, það sparnaðarform lífeyris, geti líka gagnast í þessum sama tilgangi. Það er ekki hluti af þessu máli en er hluti af því umhverfi sem við höfum byggt upp vegna þess að skattfrjáls úttekt séreignarsparnaðar hefur af sumum verið gagnrýnd fyrir það að hún nýtist ekki nægilega vel tekjulægri enda vinnumarkaðarins. Á móti vega þá úrræðin sem fylgja tilgreindu séreigninni sem myndu þá bæta upp fyrir það sem upp á vantar vegna þess að þar geta menn nýtt þann þátt sparnaðarins upp í hámörkin sem eru skilgreind samkvæmt lögunum fyrir úttekt séreignarsparnaðarins.

Þá er komið að því að gera grein fyrir mati á fjárhagsáhrifum af þessu máli. Það er gert ráð fyrir að breytingarnar á lögum um virðisaukaskatt muni hafa jákvæð áhrif á tekjur og afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Nákvæm niðurstaða liggur ekki fyrir en við gerum þó ráð fyrir að lækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts af vinnulið íbúðarhúsnæðisins muni auka tekjur ríkissjóðs um 2,7 milljarða á síðari helmingi ársins 2023 en síðan um 6 milljarða á ársgrundvelli á árinu 2024.

Þá má telja að tillagan að framlengingu skattfrjálsrar ráðstöfunar viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar til að afla íbúðarhúsnæðis til eigin nota muni ekki hafa teljandi viðbótaráhrif umfram þau áhrif sem þegar kunna að hafa komið fram af völdum heimildarinnar frá 2014. Það mat byggist á því að nýtingin verði áfram svipuð og verið hefur að undanförnu en gera má ráð fyrir því að flestir sem nýta séreignarsparnað sinn til greiðslu inn á fasteignalán geri það áfram á meðan það er í boði. Heldur hefur þó fækkað í hópnum síðustu misseri. Í heildina hefur fólk þó tekið út úr séreignarsparnaðarúrræðinu yfir 100 milljarða frá því að úrræðið var lögfest. Nánar tiltekið er úttektarumfangið eða heildarumfangið metið á 107 milljarða um þessar mundir og 59.000 manns koma þar við sögu. Þeir hafa þá nýtt sér heimildina einhvern tímann á tímabilinu frá júlí 2014 til mars 2023. Að því gefnu að nýtingin verði áfram sú sama og verið hefur má búast við því að um 130 milljarðar verði alls í þessu mengi sem hefur verið tekið út og ráðstafað inn á höfuðstól fasteignalána á tímabilinu frá júlí 2014 til og með desember 2024, þar af um 20 milljarðar á tímabili þeirrar framlengingar sem hér er lögð til.

Í frumvarpinu er að finna mat á jafnréttisáhrifum, samfélagslegum áhrifum, efnahagslegum áhrifum og áhrifum á jafnrétti kynjanna eftir atvikum út frá einstaka tillögum frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.