Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[16:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þann þátt sem varðar skatteftirlitið, þ.e. aukin úrræði til að bregðast við vanskilum. Ég er hrifin af þessari breytingu og held að við ættum alltaf að hafa í huga hver kostnaður samfélagsins er af því og hvernig samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist þegar sumir skilgreina sig utan marka reglnanna. Og kannski sérstaklega flagga því að það er auðvitað alltaf þannig í samhengi við skattalagabrotin að þegar þau eru á stórum skala fylgir þeim alltaf áhætta á því að blandast saman við peningaþvætti. En mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því að hérna kemur fram tiltekin breyting varðandi frekari úrræði skattayfirvalda til eftirlits og aðgerða þegar menn verða uppvísir að brotum: Munum við sjá einhver frekari skref stigin í þessum efnum?