Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur verið rætt hvernig framlenging á skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán hefur neikvæð áhrif á íbúðaverð, hvernig þessi ráðstöfun mun halda áfram að viðhalda þeim neikvæðu áhrifum sem þegar eru komin fram, þannig að ég ætla ekki að dvelja mikið við þann þátt. En mig langar að spyrja ráðherrann, vegna þess að í greinargerð frumvarpsins kemur fram að þessi framlenging sé hluti af aðgerðum til að styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks, m.a. með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum: Er þetta markviss aðgerð? Ég hefði nefnilega haldið að séreignarsparnaðarleiðin væri með þeim ómarkvissari af því að þar er ekki fókusinn settur á þá hópa sem þurfa að njóta. Eins og fram kemur í áhrifamatskafla greinargerðarinnar þá eru af þeim 107 milljörðum sem hafa farið í gegnum þetta úrræði frá upphafi ekki nema 5 milljarðar sem hafa verið greiddir út vegna útborgunar við kaup á fasteign sem, eins og ég skil framsöguræðu ráðherrans, (Forseti hringir.) er sá hluti þessa úrræðis, sá helmingur úrræðisins, sem nýtist lág- og millitekjufólki best. 5% úrræðanna hafa runnið þangað. (Forseti hringir.) Hversu mikið af þeim 20 milljörðum sem framhaldið er metið að umfangi mun renna til lág- og millitekjufólks eins og loforðið stóð nú til?